„Við höfum verið að vinna með óson í tuttugu ár,“ segir Bjørn Karlsen frá norska fyrirtækinu Redox, sem nú vinnur með íslenska fyrirtækinu Eldislausnir að því að kynna fyrir Íslendingum kosti þess að nota ósonblandað vatn til þess að þrífa bæði tækjabúnað og matvæli.
„Ósonið sjálft er samt ekkert nýtt,“ segir Bjørn. „Það eru 117 ár síðan það var fyrst farið að nota það til að sótthreinsa drykkjarvatn.“
Og nú er fyrir löngu farið að nota óson líka til að sótthreinsa ekki aðeins drykkjarvatn heldur sundlaugar, eldiskvíar á landi, vinnsluvélar og annan búnað í sjávarútvegi og annarri matvælaframleiðslu. Það er einnig notað til að hreinsa matvæli af öllu tagi, grænmeti, ávexti, ber, fisk, kjúkling og fleira.
Miklu skilvirkara en klór
„Þetta er öflugasta oxunarefni sem við þekkjum,“ segir Bjørn. „Og það er gert úr lofti, úr súrefni, og þegar það er notað breytist það aftur í súrefni, þannig að það er hundrað prósent náttúrlegt.“
Hann segir ósonið vera 3.200 sinnum skilvirkara en klór. Ekkert geti myndað mótstöðu gegn ósoni.
Ekkert sé því heldur til fyrirstöðu að nota ósonblandað vatn til að hreinsa matvæli, þar á meðal fisk og annað sjávarfang. Evrópusambandið vilji hins vegar setja um það reglur og þær eru í smíðum.
„Þetta hefur reyndar lengi verið notað til að þrífa matvæli. Bæði hér í Evrópu og annars staðar í heiminum. En svo áttaði Evrópusambandið sig á því að ekki voru til neinar reglur um þetta, og nú er þetta bannað þangað til reglurnar hafa verið settar. Þannig að það er í raun bara formsatriði,“ segir Bjøn. „Evrópusambandið starfar mjög hægt.“
Hann segir að von sé að tilskipun frá Evrópusambandinu á allra næstu vikum eða mánuðum. Þar með verði komið formlegt leyfi til að nota ósonblandað vatn við þríf á matvælum.
Mikið notað í norskum brunnskipum
„Enn sem komið er notum við þetta aðeins til að hreinsa vélabúnað, bæði skip og verksmiðjur. Við höfum samt hjá okkar fyrirtæki í Noregi mest notað þetta í brunnskip,“ segir Bjørn. „En nú eru þeir á brunnskipunum farnir að sinna þessu sjálfir, þannig að við getum farið að beina kröftum okkar annað. Til dæmis hingað til Íslands.“
Hann segir fyrirtæki sitt einnig hafa notað óson á mjólkurvörur, einkum osta.
„Við erum líka að vinna að rannsóknum á því að nota ósonblandað vatn til dæmis á jarðarber í staðinn fyrir hefðbundin hreinsiefni. Það gerum við úti á ökrunum áður en berin eru týnd, til að losna við alls konar sveppi af berjunum. Og árangurinn hefur komið verulega á óvart. Ósonvatnið virkar betur en hefðbundin hreinsiefni.“
Þetta hafi raunar lengi verið gert í öðrum löndum. „Og það er sami maturinn og við borðum, þannig að ekki er þetta hættulegt.“
Hann segir búnaðinn og þekkinguna vissulega kosta sitt. Slík fjárfesting borgi sig samt upp á aðeins nokkrum mánuðum.
„Þessu fylgir engin vinna, það er nóg að ýta bara á takka og fara heim. Þannig að ef þetta bæði bjargar fiskinum, losar okkur við hreinsiefnin og sparar vinnutíma, þá er það fljótt að borga sig.