„Það er gaman að sjá þetta,“ segir Erpur Snær Hansen, sviðstjóri vistfræðirannsókna á Náttúrustofu Suðurlands. „Við byrjuðum að sjá síli aftur í Faxaflóa í fyrra og núna í ár sáum við mikið af síli þar. Við eigum eftir að fara í Breiðafjörðinn en kenningin er sú að þetta tengist lækkandi sumarsjávarhita sunnanlands undanfarin ár.“
Sílin hafa verið aðalfæða sjófugla bæði sunnan lands og vestan ásamt loðnunni norðan og austanlands. Vegna sílahrunsins hafa bæði lundar og aðrir sjófuglar átt erfitt uppdráttar hér við land í meira en áratug.
Erpur Snær hefur undanfarna daga verið á ferðalagi um Norðurland að kanna ástand lundastofnsins ásamt Ingvari Atla Sigurðsyni fostöðumanni Náttúrustofu Suðurlands, sem annars hefur aðsetur í Vestmannaeyjum.
„Við höfum farið tvisvar umhverfis landið á hverju sumri síðan 2010,“ segir Erpur Snær. „Við erum bara tveir í þessu, auk frábærra sjálfboðaliða og starfsnema á sumrin.“
Hann var staddur í Grímsey þegar Fiskifréttir náðu tali af honum, og var þá nýkominn frá Lundey í Skjálfanda. Frá Grímsey var ferðinni svo heitið til Drangeyjar.
Vonir vakna
Hann segir að endurkoma sílanna veki vonir um að sjófuglar nái sér á strik aftur, þar á meðal lundastofninn sem hefur verið afar veikburða síðan 2005.
„Lundinn er okkar vísitölutegund,“ segir Erpur Snær, því rannsóknir á lundanum ættu að endurspegla ástand annarra sjófugla. „Hjá lundanum hefur framleiðslan verið mjög léleg síðastliðin 14 ár. Lífslíkur fullorðna fuglsins hafa að vísu ekkert minnkað en hann hefur komið litlu upp af ungum.“
Verulega hefur dregið úr lundaveiði á síðustu árum, ekki síst í Vestmannaeyjum, enda fer það ekki framhjá neinum þar í hvaða ástandi stofninn er. Undanfarin ár hafa Vestmannaeyjar einungis leyft lundaveiði í þrjá daga og búið er að samþykkja að sama fyrirkomulag verði haft á nú í ár. Erpur Snær er þó ekki ánægður með þá niðurstöðu enda hefur hann árum saman barist fyrir veiðistöðvun á meðan ástandið er jafn bágborið og það hefur verið.
Kjánalegt
„Það er bara kjánalegt að halda áfram þessum veiðum þegar stofninn er á niðurleið, það sýnir í verki að einkahagsmunir eru teknir framfyrir siðlega umgengni við náttúruna og eru til lítils sóma. Hér eru 40% heimsstofns lunda og 25 prósent af lífmassa allra sjófugla í N-Atlantshafi. Þannig að við berum mikla alþjóðlega ábyrgð sem stjórnvöld hafa vanrækt í verki.“
Fréttin birtist í nýjustu Fiskifréttum.