Samningur um samstarf Íslands og Grænlands á sviði fiskveiðistjórnunar var undirritaður í Nuuk í Grænlandi þann 10. október síðastliðinn. Í frétt Fiskistofu segir að þjóðirnar eigi ríkra sameiginlegra hagsmuna að gæta þegar kemur að nýtingu auðlinda hafsins og eru fiskistofnar ein þeirra mikilvægustu.
Samstarf Fiskistofu á Íslandi og Greenland Fisheries License Control Authority í Grænlandi hefur verið mikið og gott og er nú formfest með undirritun samningsins, segir í fréttinni.
Samningurinn tekur til samstarfs við eftirlit með fiskveiðum sem felst m.a. í öruggri miðlun upplýsinga um veiðiskip þjóðanna og veiðar þeirra. Einnig felur samningurinn í sér samkomulag um miðlun þekkingar og þjálfun starfsfólks. Sá þáttur getur t.d. falist í því að eftirlitsmenn frá Grænlandi komi hingað til lands og íslenskir eftirlitsmenn fari til Grænlands til að fræðast um störf kollega sinna, bæði í formi fyrirlestra og í vettvangsferðum.
„Samstarf Fiskistofu við systurstofnanir í nágrannalöndunum er umtalsvert og er veigamikill þáttur í því að tryggja ábyrga nýtingu auðlinda hafsins. Fiskistofa hefur áður gert formlega samninga við Noreg, Færeyjar og Rússland,“ segir Fiskistofa.