Talsverðar fjárfestingar eru framundan hjá HB Granda jafnvel þótt litið sé framhjá nýsmíði þriggja togara sem staðið hefur yfir og lýkur með heimkomu Viðeyjar RE fyrir jól. Eins og Fiskifréttir hafa sagt frá hefur fyrirtækið ákveðið að kaupa þriðjungshlut í Háteig fiskþurrkun og taka þátt í samstarfsverkefni um byggingu verksmiðju til framleiðslu á kollageni úr fiskroði.
HB Grandi starfrækti fiskþurrkun á Akranesi um nokkra ára skeið en henni hefur verið lokað og engin starfsemi verið í henni í eitt og hálft ár.
„Við ætlum að gerast þriðjungs hluthafar í Háteig fiskþurrkun sem hefur verið að jöfnu í eigu Nesfisks og Skinney-Þinganess. Þessi fyrirtæki keyptu fiskþurrkunina síðastliðið vor sem er með afköst upp á 6-7 þúsund tonn á ári,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda.
Eftir að fiskþurrkun HB Granda lagðist af á Akranesi hefur fyrirtækið selt afurðir til fiskþurrkunar til annarra. Til umræðu var að byggja nýja fiskþurrkun en niðurstaðan varð sú að þessi þrjú sjávarútvegsfyrirtæki sameinuðust um að byggja stóra og öfluga fiskþurrkun á grunni Háteigs fiskþurrkunar við jarðvarmaver HS Orku á Reykjanesi. Áætluð afköst er vinnsla á um 30 þúsund tonnum af hráefni. Hlutafjárframlag HB Granda til verksmiðjunnar verður 450 milljónir kr.
Aðal útflutningsmarkaður þurrkaðra fiskafurða er Nígería. Markaðurinn hrundi í kjölfar verðfalls á olíu enda Nígería eitt af stærstu olíuframleiðsluríkjum heims.
„Markaðurinn hefur aðeins verið að koma til. Við reiknum auðvitað með hagkvæmum rekstri og ekki síst í því ljósi að undanfarna áratugi hefur fiskþurrkun verið að skila góðri afkomu. Við trúum því að þessi markaður sé kominn upp úr dýpstu lægðinni.
Vinnsla á 4.000 tonnum af roði
Kollagen er verðmæt vara sem unnin er m.a. úr fiskroði. Hún er notuð í framleiðslu á snyrtivörum og lyfjum. Heimsmarkaður fyrir kollagen á árinu 2016 var 3,2 milljarðar dollara, sem samsvarar um 332 milljörðum ÍSK. Áætlað er að markaðurinn vaxi um 7% til ársins 2022.
Vilhjálmur segir að staðið hafi til í nokkurn tíma að HB Grandi tæki þátt í verkefninu sem byggt er á samstarfi Þorbjörns hf. og Vísis hf. í Grindavík í kringum Codland fullvinnslufyrirtækið. Auk þess taka þátt í verkefninu Samherji og saman eiga þessi fjögur fyrirtæki jafnan 90% hlut og spænska fyrirtækið Junca Gelatines 10% hlut. Hlutafjárframlag HB Granda er u.þ.b. 140 milljónir kr. og miðað við sama hlutafjárframlag hinna þriggja íslensku félaganna og 10% hlut spænska félagsins nema hlutafjárframlögin samtals u.þ.b. 620 milljónum kr.
„Þetta nýja félag tekur við keflinu og kemur því í framkvæmd að reisa verksmiðju til að vinna kollagen úr roði. Hjá okkur falla til í kringum 1 þúsund tonn af roði á ári. Við vonumst til að verksmiðjan geti unnið úr um 4 þúsund tonnum af roði þegar starfsemin er kominn í fullan gang.“
Fram að þessu hafði roð frá HB Granda að mestu farið í bræðslu og að einhverju leyti í framleiðslu á hundamat á vegum annarra aðila.
Vilhjálmur segir að nú hefjist undirbúningur að nýju verksmiðjunni sem felist meðal annars í því að velja henni stað. Hann segir þessi verkefni lið í því að gera meiri verðmæti úr því sem berst að landi úr hafinu.