„Það gengur glimrandi vel. Það er mikil viðurkenning að fá Landsbjörgu sem viðskiptavin,“ segir Heimir Gylfason, frumkvöðull í Multitask, um samning sem fyrirtækið hefur gert um sölu á 116 neyðarsendum og björgunarvestum til Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Heimir kveðst hafa fengið skilaboð um það þann 12. desember síðastliðinn að neyðarsendirinn Sjókall og S24 björgunarvesti frá Multitask hefðu orðið fyrir valinu hjá Landsbjörgu.

„Ég er búinn að vera að reyna við þá síðan ég byrjaði í þessu brölti mínu. Það var árið 2010 sem ég tók fyrst þátt í kynningu fyrir þá og síðan þá hefur maður alltaf eitthvað verið að ræða við þá,“ segir Heimir.

Tóku vestin líka

Samningurinn er fjármagnaður með  tæplega 14 milljóna króna styrk sem Slysvarnafélaginu Landsbjörgu barst frá Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu í Bandaríkjunum.

„Þeir fengu styrk og þurfa að velja og hafna. Þetta er stór fjöður í okkar hatt sem viðurkenning á því sem við erum að gera,“ segir Heimir. Það sé mikilvægt fyrir Multitask að Landsbjörg velji neyðarsenda frá fyrirtækinu fyrir sitt fólk úr öllu því sem í boði sé. „Og ekki bara það; þeir ákváðu líka að taka björgunarvestin hjá okkur sem ég hef hannað og þróað síðan ég byrjaði í þessu 2011,“ segir Heimir.

Sjókall í uppsjávarskipunum

Vestin og sendarnir fara í ný björgunarskip Landsbjargar. „Það var ákveðið að taka þetta í nýju björgunarskipin þannig að samhliða því að þeir fá þau fá þeir þennan vöktunarbúnað á áhafnirnar. Það eru nokkur skip komin og við erum búin að afhenda í Þór í Vestmannaeyjum sem er með Sjókall. Og nú fá þeir ný vesti næst þegar við komumst til Eyja,“ segir Heimir.

Sjókall er þegar víða í íslenska flotanum að sögn Heimis. „Við erum í stærstu útgerðunum á Íslandi. Uppsjávarflotinn allur er nánast eins og hann leggur sig hjá okkur,“ segir Heimir. Hann tekur fram að fyrirtækið hafi frá upphafi fengið ómetanlegan stuðning frá Síldarvinnslunni í Neskaupstað.

Beint á braut Sjókallsins

„Sá stuðningur hefur orðið til þess að þetta varð að veruleika. Þetta kemur allt upp úr hatti stjórnenda á þeim tíma. Þeirra frumkvæði varð til þess að við fórum að hugsa inn á þessa braut,“ segir Heimir og nefnir sérstaklega Gunnþór Ingvason, forstjóra Síldarvinnslunnar. Einnig hafi útgerðarstjórinn n á þeim tíma komið að málinu.

„Þeir leituðu til okkar og við förum af stað í þessa vegferð og úr varð þetta vörumerki Sjókall,“ segir Heimir.

Í dag starfa samtals hjá Multitask í Neskaupstað og í Hafnarfirði þar sem Heimir segir fyrirtækið hafa opnað útibú vegna aukinna umsvifa með Sjókall. „Grunnþjónustan er alls konar fjarskipta- og rafeindaþjónusta um borð í skipum og bátum. Við aðlögum okkur

að þörfum viðskiptavinarins. Okkar vörur eru í stanslausri þróun, gott getur alltaf verið betra og allt er mögulegt,“ segir frumkvöðullinn í Multitask.

Tíminn er mjög mikilvægur

Neyðarsendirinn Sjókall.
Neyðarsendirinn Sjókall.

Sjókall frá MultiTask er lítið staðsetningartæki sem sett er í björgunarvesti og virkjast ef maður fellur frá borði skips. Innan 20 sekúndna er neyðarkall sent í talstöð skipsins og í AIS-móttakara. Tíminn er mjög mikilvægur í neyðartilvikum sem þessum og mikilvægt er að björgunaraðgerðir hefjist strax.

Einnig sendir Sjókall frá sér GPS staðsetningu. Staðsetninguna er hægt að sjá á talstöð og í plotter skipsins ef plotterinn bíður uppá það. GPS sendingin uppfærist á mínútu fresti í þrjár mínútur og eftir það á fimm mínútna fresti til þess að spara rafhlöðuna.