Um helgina lauk talningu atkvæða um kjarasamninga fyrir sjómenn á smábátum en að honum standa Landsamband smábátaeigenda og sjómannasamtökin.

Niðurstaðan varð sú að 74% þeirra félagsmanna LS sem greiddu atkvæði samþykktu samninginn og sjómannamegin voru það 64% sem samþykktu.

Á kjörskrá LS voru eigendur 1071 báts og atkvæði greiddu 267.  Kosningaþátttakan var því 25%.

Þetta kemur fram á vef LS. Þar segir ennfremur, að þetta sé í fyrsta skipti sem samþykktur sé kjarasamningur fyrir smábátaflotann á landsvísu. Ekki séu mörg ár síðan sjósókn á smábátum hafi nánast eingöngu verið einmenningssjósókn og þá hafi það yfirleitt  verið eigendur bátanna sjálfir sem reru. Þetta hafi breyst verulega undanfarin ár.