Langþráð samkomulag hefur náðst á milli Íslands, Grænlands, Færeyja, Evrópusambandsins og Noregs um stjórnun veiða á úthafskarfa á Reykjaneshrygg og gildir það út árið 2014. Það felur í sér að engin veiði verði úr efri stofni úthafskarfans en miðað er við að afli ársins 2011 úr neðri stofni verði 38 þúsund tonn.
Ennfremur var ákveðin skipting heildaraflamarks á milli ríkjanna og koma 31,02% í hlut Íslands. Það samsvarar tæplega 12.000 tonnum á yfirstandandi ári. Aflinn Íslendinga á síðasta ári úr neðri stofninum var tæp 15.000 tonn.
Ástand úthafskarfastofnanna hefur í mörg ár verið alvarlegt og veiðar verið langt umfram ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES). Stefnt er að því að árið 2014 verði aflinn í samræmi við ráðgjöf.
Þess skal getið að Rússar mættu ekki til samningafundarins og eiga því ekki þátt í samkomulaginu.
Formaður íslensku sendinefndarinnar var Kristján Freyr Helgason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.