Samkomulag náðist á fundi strandríkjanna og ESB á fundi í London fyrr í mánuðinum um heildaraflamark í kolmunna og síld en ennþá er ósamið um skiptingu heildarkvótans milli aðila.
Samkomulag náðist um 1.447.000 tonna kvóta í kolmunna í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES.
Um miðjan þennan mánuð var fundarlota í London milli sendinefnda frá Íslandi, Evrópusambandinu, Færeyjum, Bretlandi og Noregi. Umfjöllunarefnið var samkomulag um heildarkvóta í kolmunna og norsk-íslenskri síld fyrir næsta ár. Sem fyrr segir náðist samkomulag um heildarkvóta í kolmunna en framundan eru fyrirhugaðir fundir um innbyrðis skiptingu milli samningsaðila.
Í framhaldi af fundinum um heildaraflamark í kolmunna var fjallað um annan deilistofn sem er norsk-íslensk síld. Samingsaðilar þar eru Noregur, Færeyjar, Ísland, Bretland og Rússland. Samkomulag náðist um tæplega 402.000 tonna heildarkvóta á næsta ári sem einnig er í samræmi við ráðgjöf ICES. Þar á einnig eftir að semja um innbyrðis skiptingu kvótans milli samingsaðila.