Strandríkin í úthafskarfaveiðunum, Ísland, Færeyjar og Grænland, lögðu sameiginlega fram drög að ákvæðum um stjórn þessara veiða á ársfundi NA-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) í síðustu viku en ekki náðist samkomulag á grunni þeirra.

Á fundinum var hins vegar ákveðið að strandríkin bjóði til fundar með öllum aðildarríkjum NEAFC í janúar 2011. Á þeim fundi er stefnt að því að ná samkomulagi um stjórn veiðanna.

Jafnframt var staðfestur samningur strandríkja um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og kolmunnastofninum sem gerður var í október síðastliðnum. Rússar greiddu atkvæði gegn samþykkt samkomulags um kolmunna og eru því óbundnir af því.

Einnig var gengið frá samningi um veiðar á karfa í Síldarsmugunni. Þar var aflamark lækkað milli ára úr 8.600 tonnum í 7.900 tonn. Ísland sat hjá við þá samþykkt en Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur lagt til að engar beinar veiðar fari fram.

Framkvæmdastjóri fiskveiðinefndarinnar til síðustu 10 ára, Kjartan Hoydal frá Færeyjum mun láta af stöfum í júni á næsta ári og var ákveðið að við stöðu hans taki Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.