Matvælaráðuneytið hefur samið við Intellecta um markvissari og skilvirkari öflun og úrvinnslu gagna í sjávarútvegi. Frá þessu er skýrt á vef stjórnarráðsins, en þetta var kynnt á fjórða fundi samráðsnefndar um sjávarútvegsstefnu sem haldinn var 16. nóvember síðastliðinn.

Á fundinum vakti Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, máls á því að ekki hafi staðið á fyrirtækjum í greininni að vinna með stjórnvöldum að því að vinna úr þeim upplýsingum sem safnað er með sjálfvirkum hætti í vinnsluhúsum og fiskiskipum.

„Þessi fyrirtæki eiga alveg gríðarlegt magn af upplýsingum, úr fiskvinnslunum, úr skipunum, sem er meira og minna safnað sjálfvirkt saman. Við erum til dæmis að lengdarmæla og vigta fleiri milljón fiska á ári,“ sagði Kristján.

Enn með tommustokkinn

Það hafi hins vegar strandað á stjórnvöldum að taka við þessum gögnum og vinna úr þeim.

„Annað hvort hafa þeir ekki haft áhuga á því, sem er ekki líklegt, eða þeir hafa ekki haft bolmagn til þess að fara í þá vinnslu. Þetta er miður. Mér þykir sorglegt að sjá starfsmann Fiskistofu standandi aftur á vinnsludekki skipa með tommustokk og lengdarmæla einn og einn þorsk eða fisk, þar sem við gerum þetta inni í frystihúsinu sjálfvirkt. Og það renna fleiri þúsund fiskar í gegn á dag.“

Það var í framhaldi af þessum orðum Kristjáns og fleiri þeirra sem tóku til máls á fundinum sem Agnes Kro, formaður starfshópsins Tækifæri, skýrði frá því að ráðuneytið sé búið að „gera samning við aðila um að kortleggja öll þau gögn og þær upplýsingar og skýrsluskil sem eiga sér stað alveg frá upphafi veiða og þar til fiskurinn er fluttur úr landi á hvaða formi sem það er. Tilgangurinn er sá að einfalda þetta kerfi.“

Nýir möguleikar með gervigreind

Á vef stjórnarráðsins birtist stuttu síðar nánari útlistun á þessu verkefni:

„Í kringum sjávarútveg og tengdar greinar verður til mikið magn af gögnum sem skila sér ekki alltaf á sömu staði og nýtast því ekki sem skyldi. Um er að ræða gögn frá rekstraraðilum, stjórnsýslunni og rannsóknargögn sem má nýta betur en nú er gert. Með aukinni þróun í gervigreind við gagnaúrvinnslu hafa orðið til nýir möguleikar til gagnaöflunar og upplýsingagjafar sem draga úr kostnaði og tryggja meiri áreiðanleika. Niðurstöður verkefnisins munu nýtast í vinnu starfshópa Auðlindarinnar okkar, Aðgengi, Samfélag, Tækifæri og Umgengni.“