Nýsmíðaður snurvoðar- og netbátur er væntanlegur til heimahafnar í Grímsey eftir rúmt ár. Hafborg ehf. í Grímsey hefur skrifað undir samning á nýsmíði á 25.95 metra báti sem verður byggður í Hvide Sande í Danmörku. Ráðgarður hannaði skipið. BP Shipping Agency Ísland sá um sölu og samningsgerð. Nýja skipið fær nafnið Hafborg EA og mun leysa samnefnt eldra skip af hólmi. Frá þessu er greint í nýjustu Fiskifréttum.
„Það er vaxandi krafa um að auka verðmæti aflans með betri meðferð um borð og til þess er leikurinn meðal annars gerður. Við hugum kannski líka að fleiri verkefnum með stærri báti,“ sagði Guðlaugur Óli Þorláksson, útgerðarmaður og skipstjóri, í samtali við Fiskifréttir.
Núverandi Hafborg EA er 18,7 metrar á lengd og getur tekið 15 til 17 tonn í kör. Hún hét áður Stapavík AK en var keypt til Grímseyjar árið 2005. Nýi báturinn verður mun stærri, eða tæpir 26 metrar á lengd eins og áður sagði og getur tekið um 50 tonn af fiski í kör.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.