Samherji hefur fest kaup á uppsjávarskipinu Antares af Antares Fishing (Whalsay) á Hjaltlandi. Skipið fær nafnið Margret og verður með einkennisstafina EA 710, að því er Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, sagði í samtali við Fiskifréttir.

Stefnt er að því að Samherji fái skipið afhent á föstudaginn. Nýja Margret EA var smíðuð í Flekkefjord í Noregi árið 1995 en skipið var lengt árið 2009. Mesta lengd skipsins er 73 metrar og breiddin er um 13 metrar. Aðalvélin er af gerðinni Wartsila Vasa og er 4920kW. Í skipinu eru RSW kælitankar sem taka alls rúm 2.000 tonn.

„Okkur vantar skip inn í reksturinn en við höfum þó ekki verkefni fyrir það allt árið. Nýja Margret mun stunda veiðar á kolmunna og loðnu,“ sagði Kristján.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.