Samherji hefur nú kært úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, frá því í síðustu viku, til Hæstaréttar Íslands. Málið snýst um húsleit og haldlagningu gagna sem Seðlabanki Íslands framkvæmdi hjá Samherja í lok mars sl. Krafa Samherja í málinu lýtur að því að fá þær aðgerðir dæmdar ólögmætar og að Seðlabankanum verði gert að skila aftur haldlögðum gögnum. Héraðsdómur úrskurðaði í málinu 15. maí og hafnaði kröfu Samherja.
Í yfirlýsingu Samherja er bent á að héraðsdómarinn hafi fjallaÐ um útreikninga Seðlabanka Íslands á verði á karfa sem Samherji seldi til Þýskalands á síðustu mánuðum ársins 2011. Samkvæmt útreikningum Seðlabankans virðist Samherji hafa selt karfann á verulegu undirverði og fullyrðir bankinn að mismunurinn hafi verið 68% í október, 28% í nóvember og 73% í desember. Útreikningar Samherja sýna hins vegar að verðmunurinn er einungis 1%.
Dómarinn hafi átalið þessa útreikninga bankans, sérstaklega fyrir þær sakir að Seðlabankinn taki ekkert tillit til magns í viðskiptunum og gerir ekki greinarmun á því þegar 10 kíló eru send með flugi eða þegar 20 tonn fara í gámi með skipi.
Síðan segir í yfirlýsingu Samherja: ,,Mál Seðlabankans gegn Samherja virðist að stórum hluta grundvallast á þessum karfaverðsútreikningum. Samherji hefur farið yfir útreikninga Seðlabankans og kemur þá í ljós mjög alvarleg stærðfræðileg villa sem leiðir til rangrar niðurstöðu. Þessi villa sem Seðlabankinn gerir er þekkt í stærðfræðinni og kemur upp þegar tekið er meðaltal af meðaltölum.“
Sjá nánar greinargerð og útreikninga á vef Samherja .