Samherji Ísland ehf. hlaut á dögunum jafnlaunavottun sem staðfestir að fyrirtækið uppfyllir kröfur um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Frá þessu er greint á heimasíðu fyrirtækisins.
BSI á Íslandi, sem er faggiltur vottunaraðili, tók út jafnlaunakerfi fyrirtækisins í desember og janúar síðastliðnum. Vottunin felur í sér að stjórnunarkerfi Samherja Íslands virki sem skildi, en kerfið á að tryggja að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.
„Við erum mjög ánægð að hafa fengið vottunina sem staðfestir að við erum að greiða starfsmönnum í sambærilegum störfum jöfn laun, óháð kyni. Nú tekur við að undirbúa og innleiða kerfið í önnur fyrirtæki í samstæðu Samherja,” segir Anna María Kristinsdóttir, starfsmannastjóri Samherja.