Þótt Samherji sé ekki kvótahæsta útgerðin á Íslandi (HB Grandi er það) ber fyrirtækið höfuð og herðar yfir önnur íslensk sjávarútvegsfyrirtæki þegar kemur að veltu. Það stafar sem kunnugt er af umsvifum Samherja á erlendri grund auk starfseminnar hér heima. Velta Samherja nam yfir 74 milljörðum króna á árinu 2014 og sjást yfirburðir hans best á því að næststærsta íslenska sjávarútvegsfyrirtækið, HB Grandi, velti „aðeins“ 33 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í nýbirtri úttekt tímaritsins Frjálsrar verslunar. Fiskifréttir birta í dag lista yfir 30 stærstu sjávarútvegsfyrirtækin samkvæmt úttektinni, en í næstu sætum á eftir Samherja og HB Granda koma Síldarvinnslan (21,4 milljarður), Ísfélag Vestmannaeyja (12,4 milljarðar) og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum (11,7 milljarðar).

Sjá nánar í Fiskifréttum og Frjálsri verslun.