Samherji hf. hefur ákveðið að greiða starfsmönnum í landi 260 þúsund króna launauppbót nú í desember, til viðbótar umsaminni 46 þúsund króna desemberuppbót. Þetta er í annað skiptið á árinu sem Samherji greiðir uppbót á laun.
Starfsmaður í fullu starfi fær því samtals 320 þúsund króna aukagreiðslur á árinu. Þetta er jafnframt annað árið í röð sem Samherji greiðir um 300 starfsmönnum eingreiðslur umfram kjarasamninga.
,,Þegar við lítum yfir árið erum við ánægð með hvernig til hefur tekist á flestum sviðum. Okkur hefur gengið vel í markaðsstarfi, verð hefur hækkað á mörgum mörkuðum, birgðir eru í jafnvægi og bæði framleiðslan og fiskeldið hafa gengið vel, ”segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja. .
,,Áhyggjuefni mitt er stefna núverandi stjórnvalda í sjávarútvegsmálum, sem ef fram gengur mun hafa neikvæð áhrif á fyrirtækið og þar með starfsfólkið. Hættan á því að við missum okkar verðmætustu viðskiptavini til samkeppnisaðila í Noregi er raunveruleg. Viðskiptavinir okkar vita eins og við að stefna norskra stjórnvalda í sjávarútvegsmálum er stöðugleiki,” segir Þorsteinn Már ennfremur.
Starfsmenn Samherja í landi, sem unnið hafa í fullu starfi í 12 mánuði eða lengur, fá 260 þúsund króna launauppbót. Þeir sem starfað hafa í 6-12 mánuði fá helming þeirrar upphæðar.
Sjá nánar á vef Samherja, HÉR