Gauti Þór Grétarsson er nýr öryggisstjóri Samherja. Hann segir greinilegt að Samherji standi framarlega á sviði öryggis- og vinnuverndarmála, enda leggi félagið metnað sinn í að tryggja öryggi starfsmanna, efla heilbrigði þeirra og fyrirbyggja fjarveru úr vinnu vegna slysa eða annarra heilsufarsvandamála.

Gauti Þór hefur undanfarin ár starfað sem verkefnastjóri öryggismála og framkvæmda hjá Norðurorku, þar áður var hann slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður. Gauti Þór tekur við starfinu af Jóhanni Sævarssyni sem var öryggisstjóri Samherja í níu ár.

Allir rói í sömu átt

„Mitt fyrsta verk er að kynnast starfseminni og fólki. Samherji er með margþætta starfsemi, svo sem útgerð, landvinnslu og landeldi og á hverjum stað þarf að aðlaga öryggisþætti að starfseminni. Tölur um fækkun slysa hjá Samherja á undanförnum árum sýnir að öryggismálin eru tekin föstum tökum, bæði af hálfu fyrirtækisins og svo auðvitað hjá starfsfólki. Þótt slysum hafi vissulega fækkað, lýkur vöktun öryggismála í raun aldrei. Lykilatriðið er að allir séu að róa í sömu átt, eigendur, stjórnendur og starfsfólk.“

Farið yfir ýmis öryggismál í upphafi veiðiferðar.
Farið yfir ýmis öryggismál í upphafi veiðiferðar.

Öryggisstjóri er ekki boðvald

Gauti Þór segir að öryggismál séu í raun samstarfsverkefni.

„Nei ég lít alls ekki á mig sem löggu eða boðvald, síður en svo. Öryggismál eru fyrst og fremst samstarfsverkefni. Hlutverk öryggisstjórans er að vinna með sem flestum, aðstoða, fræða og efla. Hafa sem sagt hvetjandi og mótandi áhrif. Af samtölum mínum við starfsfólk er greinilegt að ríkur vilji er til að hafa þessa þætti starfseminnar í góðu lagi og ég held að Samherji standi ansi framarlega í þeim efnum.“

Mikilvægi öryggisnefnda

Á hverri starfsstöð Samherja er starfandi sérstök öryggisnefnd, sem öryggisstjóri starfar náið með.
„Þessum nefndum er meðal annars ætlað að skipuleggja aðgerðir varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi innan fyrirtækisins, annast fræðslu starfsfólks og ýmislegt fleira. Þessar nefndir eru afskaplega mikilvægar og mér sýnist þær vera ágætlega virkar hérna hjá Samherja.“

Öryggis- og vinnuverndarmál eru í hávegum í fiskvinnsluhúsi ÚA, rétt eins og á öllum starfsstöðvum.
Öryggis- og vinnuverndarmál eru í hávegum í fiskvinnsluhúsi ÚA, rétt eins og á öllum starfsstöðvum.

Vel fylgst með nýjungum

„Jú jú, það eru kynntar nýjar lausnir á hverju ári í öryggis- og vinnuverndarmálum, bæði til sjós og lands. Við gerum okkur far um að fylgjast vel með í þessum efnum og innleiða nýjar lausnir ef þær henta. Öryggismál eru í raun eilífðarverkefni og við megum aldrei sofna á verðinum. Ég hlakka til að vinna með öflugu fólki, það er greinilegt að öryggismenningin hérna er á háu stigi,“ segir Gauti Þór Grétarsson nýr öryggisstjóri Samherja.