Sigurður Jörgen Óskarsson, yfirverkstjóri hjá Samherja á Dalvík segir Fiskidaginn um næstu helgi kærkomið tækifæri til að sýna nýtt fiskvinnsluhús sem tekið var í notkun í faraldrinum.
„Það hefur verið mikil ásókn í að skoða húsið og alla tæknina sem hérna er til staðar en aðgengið er mjög takmarkað þar sem um matvælaframleiðslu er að ræða. Okkur fannst ekki koma annað til greina en að sýna þetta magnaða hús á sjálfum Fiskideginum mikla, þar sem fiskur og sjávarafurðir eru í öndvegi,“er haft eftir Sigurði á heimasíðu Samherja.
Fræðast um sjávarútveg
„Ég er nokkuð viss um að gestir verða margs vísari um íslenskan sjávarútveg eftir heimsóknina og hversu framarlega við Íslendingar stöndum. Fyrir hönd Samherja og starfsfólksins segi ég einfaldlega gjörið svo vel, gangið í bæinn og skoðið heimsins fullkomnasta fiskvinnsluhús,“ segir Sigurður einnig.
Fanney Davíðsdóttir, matráður í mötuneyti Samherja á Dalvík sér um að afhenda gestum góðgæti ásamt Júlíu Ósk Júlíusdóttur sem einnig er matráðuruneyti Samherja.
„Fiskidagurinn mikli hefur komið Dalvík á kortið og minnir okkur líka á að sjávarútvegurinn er okkar helsta atvinnugrein. Ég er stolt af því að starfa í greininni og íslenskur fiskur er besta hráefnið sem ég fæ til mín í mötuneytinu,“ er haft eftir Fanney.
Stærstu tónleikarnir
Þá er haft eftir Sigurði að Fiskidagstónleikar í boði Samherja á laugardagskvöldinu verði á heimsmælikvarða.
„Það er alveg klárt mál, enda mjög svo vandað til verka á öllum sviðum. Margir af þekktustu listamönnum landsins stíga á svið og skemmta fólki á öllum aldri. Friðrik Ómar, Eyþór Ingi og Matti Matt ásamt gestasöngvurum, hljómsveit, raddsveit og dönsurum sjá til þess að allir skemmti sér konunglega. Ég get lofað því að þessir tónleikar verða þeir glæsilegustu í sögu Fiskidagsins mikla og þá er nú mikið sagt,“ segir Sigurður á heimasíðu Samherja.
Rafmagn fyrir almenning
Komið hefur fram að skortur sé á hleðslustöðvum á Dalvík fyrir rafbíla. Samherji hefur brugðist við því. „Gestum Fiskidagsins mikla er bent á að Samherji hefur opnað tvær hleðslustöðvar fyrir almenning, stöðvarnar eru skammt frá fiskvinnsluhúsinu. Notendur þurfa að vera með aðgang frá Ísorku,“ segir á vefsíðu Samherja