„Samfélagsleg ábyrgð er það leiðarljós sem Landssamband íslenskra útvegsmanna fylgir í baráttu sinni gegn því að áform ríkisstjórnarinnar um að fyrna afheimildir sjávarútvegsfyrirtækja nái fram að ganga. Orð Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem höfð voru eftir honum fyrr í viðtali við Bylgjuna og síðar á visir.is, um hið gagnstæða eru því öfugmæli," segir í yfirlýsingu sem LÍÚ hefur sent frá sér.

Í yfirlýsingunni segir ennfremur: „Fyrningarleið stjórnvalda myndi hafa í för með sér fjöldagjaldþrot sjávarútvegsfyrirtækja með tilheyrandi tjóni fyrir efnahag landsins. Sýnt hefur verið fram á þetta í skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte, sem unnin var á síðasta ári og kynnt hefur verið stjórnvöldum. Það er því beinlínis samfélagsleg skylda útvegsmanna að vinna gegn þeim skemmdarverkum sem fyrningarleiðin felur í sér.

Ráðherra snýr hlutunum aftur á haus þegar hann heldur því fram að útvegsmenn hafi uppi hótanir. Eina hótunin í þessu máli kemur frá stjórnvöldum. Hótun um að fyrna aflaheimildir og skerða þar með rekstrargrundvöll sjávarútvegsfyrirtækja ber að taka alvarlega af atvinnurekendum sem bera ábyrgð gagnvart eigendum, starfsmönnum og fjölskyldum þeirra, viðskiptavinum, sveitarfélögum og samfélaginu öllu.

Útvegsmenn tóku sæti í svokallaðri sáttanefnd um endurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar í haust og leggja mikið upp úr því að sátt náist. Fyrningarleiðin, sem leiðir til gjaldþrots fyrirtækjanna, getur aldrei orðið grundvöllur sátta. Það var því sáttarof af hálfu ráðherra er hann lagði fram frumvarp á Alþingi um ofveiði og fyrningu á einni tiltekinni fisktegund. Um hvað á „sáttastarfið" að snúast ef stjórnvöld sniðganga nefndina þegar kemur að helstu álitaefnum?"