Á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), sem hófst í Reykjavík síðdegis í dag, verður afgreidd tillaga þess efnis að LÍÚ og Samtök fiskvinnslustöðva (SF) renni saman í ein samtök sem fengið hafa nafnið Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, skammstafað SFS.

Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri LÍÚ sagði, þegar hann gerði grein fyrir þessari tillögu, að með henni væri verið að mæta kalli dagsins um að horfa ætti á virðiskeðjuna í heild í stað þess að hólfa starfsemi sjávarútvegsins niður í aðskildar einingar veiða, vinnslu og markaðssetningar.

„Flestir sem komið hafa að undirbúningi þessa máls telja að auka þurfi viðspyrnu í málflutningi sjávarútvegsins og koma sjónarmiðum greinarinnar betur á framfæri. Við teljum að stofnun samtakanna kunni að verða nýtt upphaf að því að sjávarútvegurinn hljóti þá virðingu sem honum ber,“ sagði Kolbeinn.

Kolbeinn tók fram að samrunu þessara tveggja samtaka væri ekki hugsaður sem hagræðingaraðgerð. Búið væri að stilla upp fjárhagsáætlun fyrir næsta ár og væri gert ráð fyrir sömu útgjöldum og tekjum.

Við stofnun samtakanna verður sú breyting að hin svæðisbundnu útvegsmannafélög verða ekki lengur aðilar að nýju samtökunum, eins og verið hefur innan LÍÚ, heldur verður hvert og eitt fyrirtæki aðili, þó þannig að atkvæðavægi einstaks félags má ekki fara yfir 12%. Kosin verður 18 manna stjórn og mun sex manna framkvæmdaráð starfa milli stjórnarfunda.