„Könnun á því að ráðast í sameiginlega markaðssetningu íslenskra sjávarafurða er enn á frumstigi hjá okkur. Við erum að skoða ýmsa þætti málsins og þá sérstaklega fjármögnun slíks verkefnis sem er erfðasti hjallinn í þessu,“ sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í samtali við Fiskifréttir.
Hugmyndin um sameiginlega markaðsstarfsemi sjávarafurða með áherslu á Ísland sem upprunaland, líkt og Norðmenn og Alaskabúar hafa gert með sínar sjávarafurðir, hefur verið til umræðu innan atvinnugreinarinnar síðustu misserin. Málið hefur dregist á langinn vegna ósamkomulags innan greinarinnar um það hvernig fjármagna ætti verkefnið og jafnvel hvort þörf væri á slíku átaki. Málið bar á góma á Sjávarútvegsráðstefnunni á dögunum og mælti forstjóri Iceland Seafood meðal annarra sterklega með því að ráðist yrði í verkefnið. Hann sagði að það skipti öllu máli að aðgreina sjávarafurðir frá Íslandi frá sjávarafurðum annarra landa.
„Að mínu mati er þetta spurning um það hvenær ráðist verður í stórt sameiginlegt markaðsátak fyrir íslenskar sjávarafurðir en ekki hvort það verður gert,“ segir Heiðrún Lind og telur eðlilegast að þetta verði sameiginlegt átak atvinnugreinarinnar og stjórnvalda.
Sjá nánar í Fiskifréttum.