Á yfirstandandi fiskveiðiári er útgefinn ýsukvóti 30.400 tonn, sem er fimmtungi minna en á fiskveiðiárinu 2013/2014, að því er fram kemur í samantekt á vef Landssambands smábátaeigenda.

Áhrif þessa sjást greinilega á útflutningstölum fyrir ferska ýsu á fyrsta ársfjórðungi. Þrátt fyrir að verð fyrir hana hafi hækkað um 13% frá því í fyrra er útflutningsverðmæti 19% lægra.

Alls voru flutt út 858 tonn af ferskri ýsu á tímabilinu janúar - mars á þessu ári. Það er 28% minna á sömu mánuðum í fyrra.

Útflutningsverðmæti ferskrar ýsu á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nam 1.140 milljónum sem er 261 milljónum lægra en á sama tíma í fyrra.

Eins og í fyrra er mest flutt út til Bandaríkjanna. Það vekur hins vegar athygli hversu hlutdeild þeirra hefur hækkað á milli ára. Í fyrra var hlutdeild þeirra í heildarmagninu 42% en er nú farin að nálgast helming, komin í 46%. Hlutdeild Breta hefur hins vegar hrapað, var 38% í fyrra en er nú komin niður í 27%, en þeir eru eftir sem áður næst stærstu kaupendur héðan af ferskri ýsu, segir ennfremur á vef LS.