Verðmæti og magn fisks sem skosk skip komu með að landi árið 2015 lækkaði miðað við árið á undan, um 15% í verðmæti og 8% í magni. Þetta stafar aðallega af samdrætti í uppsjávarfiski, að því er fram kemur í grein á vefnum fis.com. Þar er fjallað um nýja yfirlitsskýrslu um fiskveiðar Skota á árinu 2015.

Alls lönduðu skosk skip 440 þúsund tonnum af fiski og skelfiski á síðasta ári og aflaverðmæti þeirra var 437 milljónir punda, eða rúmir 64 milljarðar íslenskir.

Á árinu 2015 lönduðu skosk skip um 292 þúsund tonnum af uppsjávarfiski að verðmæti 160 milljónir punda, um 23,5 milljarðar íslenskir. Það er samdráttur um 27% í verðmæti og 12% í magni.

Verðmæti botnfisktegunda nam 143 milljónum punda, 21 milljarði íslenskum, og dróst saman um 1% en magnið jókst um 2% og var 91 þúsund tonn.

Verðmæti skelfisks var 134 milljónir punda, tæpir 20 milljarðar íslenskir, og dróst saman um 11% en magnið jókst um 6% og var 58 þúsund tonn.

Makríll skilar Skotum mestum verðmætum og er um 30% alls aflaverðmætis, eða um 131 milljón punda, rúmir 19 milljarðar íslenskir. Samdráttur var í veiði á makríl árið 2015.

Leturhumar er mikilvægasta skelfisktegundin. Hann skilaði 61 milljón punda, eða tæpum 9 milljörðum íslenskum. Leturhumar er 14% af aflaverðmæti skoskra skipa.

Í Skotlandi voru 2.015 fiskiskip skráð í lok árs 2015 og hafði þeim fækkað um 15 frá árinu áður. Langflest þessara skipa eða báta er undir 10 metrum, eða 1.449 bátar. Um 4.800 sjómenn eru skráðir á þessi skip og báta.