Á fyrstu níu mánuðum ársins voru fluttar út sjávarafurðir frá Noregi fyrir 37,9 milljarða NOK (770 milljarða ISK). Þetta er 759 milljónum meira en á sama tímabili í fyrra sem var metár í útflutningi norskra sjávarafurða, að því er fram kemur í tölum frá fiskútflutningsráðinu norska.

Þrátt fyrir góðan árangur það sem af er ári varð samdráttur í útflutningi í september. Í heild voru fluttar út sjávarafurðir fyrir 5,1 milljarð króna í síðasta mánuði sem er 595 milljóna samdráttur frá september í fyrra.

Þessi samdráttur skýrist fyrst og fremst með verðlækkun á eldislaxi. Í september var fluttur út eldislax fyrir 2,4 milljarða NOK sem er 404 milljóna samdráttur miðað við sama mánuð í fyrra. Það sem af er ári hefur útflutningur á eldislax verið svipaður og fyrstu níu mánuði ársins 2010; laxinn skilaði um 21,7 milljörðum.