Hagnaður í norska fiskiskipaflotanum minnkaði á síðasta ári, að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna. Þetta er annað árið í röð sem hagnaður dregst saman eftir metárið 2011.
Heildartekjur norska fiskiskipaflotans voru 11,8 milljarðar króna (220 milljarðar ISK) árið 2013 og hagnaðurinn nam 1,3 milljörðum (24 milljarðar ISK), eða um 11% af tekjum.
Hagnaðurinn minnkaði í uppsjávarveiðum vegna minni veiða á norsk-íslenskri síld og lægra meðalverði. Hins vegar jókst hagnaður í botnfiskveiðum milli ára.