„Við teljum að útflutningur sjávarafurða muni taka við sér á seinni helmingi ársins, ekki síst vegna aukinna aflaheimilda í þorski. Teljum við að útflutningur muni dragast saman um 1% á árinu 2016 en við gerum ráð fyrir ríflega 4% aukningu í útflutningi sjávarafurða á árinu 2017 og rúmlega 3% aukningu árið 2018. Vert er að benda á að frá því eftir að spá okkar var birt hafa upplýsingar frá Hafrannsóknastofnun gefið til kynna að loðnuafli geti orðið mun minni á árinu 2017 en forsendur í okkar spá gera ráð fyrir."
Þetta kemur fram í nýrri sjávarútvegsskýrslu Íslandsbanka sem birt var í dag.
Áfram segir í skýrslunni:
Útflutt magn sjávarafurða á árinu 2015 nam tæpum 632 þús. tonna og er það um 3% lægra en árið 2014 og 83 þús. tonnum undir langtíma meðaltali. Þessi samdráttur í útflutningi sjávarafurða milli ára skýrist einna helst af viðskiptabanni Rússlands. Þrátt fyrir þetta námu verðmæti útflutnings á árinu 2015 um 265 mö.kr. sem er tæpum 17 mö.kr. meira (7%) en á árinu 2014 miðað við verðlag ársins 2015.
Tekjur sjávarútvegsfélaga á árinu 2015 námu 275 mö.kr. og jukust um 9 ma.kr. á föstu verðlagi eða um 3,3%. Skýrist þessi vöxtur í tekjum af auknum loðnuveiðum og auknu verðmæti þorskaflans vegna verðhækkunar á erlendum mörkuðum.
Gengi krónunnar hefur styrkst um 17% frá upphafi árs og 26% frá upphafi síðastliðins árs gagnvart viðskiptaveginni gengisvísitölu. Hefur gengi krónunnar styrkst mest gagnvart bresku pundi eða um 41% frá upphafi árs.
Sjá skýrsluna í heild á vef Íslandsbanka .
•