Þegar þrjár vikur eru eftir af árinu er samanlagður afli sex bolvískra smábáta kominn vel yfir 8 þúsund tonn en umræddir bátar eru allir dagróðrarbátar sem róa með landbeitta línu. Sá bátur sem er aflahæstur er Sirrý ÍS með 1.493 tonn en næstur kemur Einar Hálfdáns ÍS með 1.376 tonn. Þessar upplýsingar koma fram á vefnum vikari.is.
Þegar afli bolvískra smábáta er skoðaður er rétt að horfa til þess varabátar eru notaðir ef upp koma bilanir eða ef önnur áföll verða í útgerðinni og má þá draga upp mynd af aflahæstu áhöfnunum í bolvíska smábátaflotanum.
Þannig er áhöfnin á Fríðu Dagmar ÍS komin með 1.580 tonn á árinu eða um 90 tonnum meira en áhöfnin á Sirrý ÍS sem er með 1.493 tonn. Næst kemur áhöfnin á Hrólfi Einarssyni ÍS sem er komin með 1.473 tonn og svo kemur áhöfnin á Einari Hálfdáns ÍS með 1.376 tonn. Fimmta aflahæsta áhöfnin hefur lengstum verið kennd við Guðmund Einarsson ÍS en þar er aflinn kominn í 1.314 tonn og að lokum er það áhöfnin á Sigga Bjartar ÍS sem er komin með 869 tonn það sem af er árinu.
Samtals er afli þessara sex smábáta eða áhafna þeirra kominn í 8.105 tonn og nemur það um 60% af lönduðum afla í Bolungarvík á tímabilinu, segir á vikari.is.