Saltfiskframleiðendur keppast nú við að verka fisk sem fer á disk neytenda í Suður-Evrópu um jólin. Töluvert bjartara er yfir saltfisksölunni en áður og verð hefur hækkað samfara minnkandi framboði. Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum.
Efnahagskreppan í Evrópu kom einna harðast niður á löndum í Suður-Evrópu. Það birtist meðal annars í minnkandi eftirspurn eftir saltfiskafurðum frá Íslandi og lækkandi afurðarverði. Saltfiskmarkaðir eru nú að hjarna við á ný og verð hefur hækkað þótt það hafi ekki náð fyrri hæðum. Framboð á saltfiski héðan hefur minnkað enda hafa stórir framleiðendur á saltfiski snúið sér í æ ríkari mæli að öðrum fiskafurðum eftir að verð á saltfiski lækkaði. Nokkrir framleiðendur hefðu einnig hætt að verka saltfisk á síðustu misserum.
Meira jafnvægi hefur verið á saltfiskmörkuðum á framboði og eftirspurn en var til skamms tíma. Staðan er jafnvel að snúast við og einhver vöntun er á markaðnum. Í hönd fer það tímabil að kaupendur erlendis eru að birgja sig upp fyrir jólasöluna. Núna eru íslenskir saltfiskverkendur að framleiða á fullum krafti og selja grimmt.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.