Fiskifréttir hófu göngu sína árið 1983 en það var svo ekki fyrr en árið 2009 sem byrjað var að birta blaðið í PDF-útgáfu á netinu. Eldri árgangar blaðsins, frá árunum 1983 til 2008, hafa því ekki verið aðgengilegir á netinu fyrr en nú í desember síðastliðnum, þegar þeir duttu á einu bretti inn á vefinn Tímarit.is.

15. desember 1995
15. desember 1995

Í fyrsta tölublaðinu, sem kom út föstudaginn 26. ágúst 1983, segir ritstjóri blaðsins að nálega 100 einstaklingar og félög víðs vegar um land standi að útgáfunni, en þetta sé fyrsta tilraunin til að gefa út vikulegt fréttablað um sjávarútvegsmál. Á forsíðunni er rætt við Halldór Ásgrímsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, sem fagnaði tilkomu hins nýja blaðs og sagðist hafa þá von og trú að útgáfa þess verði íslenskum sjávarútvegi til framdráttar.

7. febrúar 1992 Mynd/Gísli J Ástþórsson
7. febrúar 1992 Mynd/Gísli J Ástþórsson

Fyrsti ritstjóri Fiskifrétta var Þórleifur Ólafsson. Árið 1985 tók Guðjón Einarsson við ritstjórninni og var hann við stjórnvölinn í 32 ár, eða allt til ársins 2017 þegar Svavar Hávarðsson tók við af honum. Efni blaðsins hefur verið fjölbreytt og frá fyrstu tíð markast af þeirri hröðu þróun og miklu breytingum sem orðið hafa í sjávarútvegi á þessum áratugum.

Engin smá saga

„Þetta er engin smá saga sem þarna er sögð af sjávarútveginum á Íslandi alveg frá upphafi Fiskifrétta,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátátaeigenda.

5. júní 1998
5. júní 1998

„Þarna er alhliða umfjöllun um sjávarútveginn, allt frá reglubundnum viðtölum við sjómanninn, greinar eftir hagsmunaaðila um málefni líðandi stundar, fréttir af aflabrögðum og tækni sem hæst bar hverju sinni. Allt það sem Fiskifréttir hafa fjallað um, og það er skemmtilegt að sjá þróunina. Auðvitað eiga menn ekki Fiskifréttir alveg frá upphafi en þarna getur hver sem er, hvenær sem er, kynnt sér það sem hæst bar í sjávarútveginum og séð hvernig einstaka greinar hans hafa þróast.“

Full þörf

Það var Fiskifélag Íslands sem styrkti skönnun blaðsins og upphaflega var það Örn sem stakk upp á því á stjórnarfundi félagsins að það veitti fjármagn til þess að skanna fyrstu árganga Fiskifrétta, allt frá byrjun árið 1983 til ársloka árið 2008.

FF fyrsta forsíðan
FF fyrsta forsíðan

„Mér þótti ótækt að Fiskifréttir hafi ekki verið á vefnum,“ segir Örn. „Þegar ég var búinn að sjá að það vantaði kannski bara pening í þetta þá beitti ég mér fyrir því innan stjórnar Fiskifélagsins að þetta yrði kostað og sett á vefinn. Stjórninni þótti full þörf á að því að fara í þetta verkefni og það var full eining innan stjórnarinnar um að greiða fyrir skönnunina á ritinu frá upphafi.“

Fiskifréttir kunna Fiskifélaginu og Erni bestu þakkir fyrir framtakið. Á timarit.is má nú nálgast alla árganga Fiskifrétta frá upphafi til ársins 2008, en áskrifendur Fiskifrétta geta sem fyrr nálgast blöðin frá og með árinu 2009 á vefnum fiskifrettir.is.