„Jú, við erum líklega einir um að salta síld í einhverju magni til sölu. Ég held að þetta hafi byrjað aftur árið 1996 eða 1997 svo þetta hefur verið fastur liður hjá okkur núna í hátt í þrjá áratugi,” segir Steinar Grétarsson, verkstjóri síldarverkunar hjá Loðnuvinnslunni.

Steinar segir að afurðirnar farið mikið til sömu viðskiptavina ár eftir ár. Kaupendurnir eru í Skandinavíu og Kanada. Í Svíþjóð og Noregi sé hefð fyrir neyslu á þessum afurðum allt árið en hún eykst mikið yfir jólahátíðina. Þá séu Pólverjar duglegir að snæða síld og annan fisk yfir jólin.
Mikil handavinna
„Ég reikna með að á þessu ári söltum við í 15-20 þúsund tunnur. Kvótinn okkar núna er 4.700 tonn sem er líklega um 15 þúsund tunnur. Og við erum þegar búnir að salt í 4 þúsund tunnur úr norsk-íslensku síldinni,” segir Steinar.
Það þarf mikinn mannafla í kringum söltunina og það er líklega ástæðan fyrir því að önnur fyrirtæki standa ekki í þessari vinnslu. Þetta er mikil handavinna. Það þarf að hræra mikið í þessu, hella á milli kara í annan lög og svo framvegis. Þessa dagana er verið að setja síld í edikmarineringu og þá þarf að hella á milli og hræra og í þessu felst mikil vinna.

„Við flökum alla síld núna og hún fer út annað hvort í heilum flökum eða bitum. Við tökum ekki nema um 200 tunnur á ári af þessu gamla, þ.e.a.s. hausskornu. Sá markaður hefur minnkað mjög mikið og það er bara einstaka viðskiptvinur sem vill þannig síld til að geta haldið í hefðir. Þannig er hún seld út úr búð og kúnnarnir matreiða hana eftir sínum óskum,” segir Steinar.
Lítill innanlandsmarkaður
Hann segir heilmikil verðmæti í þessari vinnslu og umtalsvert meiri en í heilfrystri síld. En það sé líka mikið haft fyrir þessu. Núna eru um 25 starfsmenn við flökun í flökunarsalnum og unnið er til kl. 19 og þá tekur við önnur 25 manna vakt. Síðan bætist við mannskapur sem hellir á milli kara þannig að samtals er þetta um 40 manns á hverri vakt. Mannskapurinn kemur úr frystihúsinu þar sem hlé er tekið á bolfiskvinnslunni meðan á síldarsöltuninni stendur. Afar lítið af afurðunum fari á innanlandsmarkað. Ora kaupi þó eitthvað en það sé ekki mikið.
„Ora hefur verið að kaupa síld líka frá Noregi og við erum bara ekki samkeppnishæfir í verði við Norðmennina. Eins undarlega og það hljómar þá er síldin ódýrari komin alla leið frá Noregi og á svipuðu verði og við erum að borga fyrir frá bátnum okkar,” segir Steinar.