Sala stendur yfir á útgerðarfyrirtækinu Sjávarmáli í Sandgerði, sem gerir út línubátinn Óla Gísla GK, til Nesfisks, með öllum aflaheimildum. Bátnum fylgja 450 tonn af aflaheimildum í þorskígildum. Söluverðið er rúmlega einn milljarður króna.
„Ég er kominn á þann punkt núna að ég varð sjötugur 1. janúar síðastliðinn. Ég er við fulla heilsu en þetta er komið gott hjá mér eftir 30 ár í rekstri. Reksturinn er í góðu lagi en einhvern tíma þarf að taka ákvörðun af þessu tagi,“ segir Guðjón.
Óla Gísla fylgja 333 tonn af þorski, 80 tonn af ýsu og 50 tonn af ufsa. Guðjón átti von á því að endanlega yrði gengið frá sölunni í þessari viku. „Þetta er ekki alveg frágengið en ég er að vona að þetta verði áfram hér í bæjarfélaginu.“
Afli Óla Gísla hefur að mestu verið seldur á markaði en einnig var hann í föstum viðskiptum, til að mynda í tengslum við byggðakvóta.
Frekir til fjárins
„Mér fannst bara orðið tímabært að huga að öðrum málum. Mér finnst líka opinberir aðilar verða orðnir alltof frekir til fjárins gagnvart þessum litlu fyrirtækjum. Það er bara nóg komið þegar lítil fyrirtæki eiga orðið í erfiðleikum með standa í skilum með skatta og skyldur, auðlindagjöld og annað. Því miður virðast stjórnvöld ekki gera sér grein fyrir afleiðingum þessa. En ég er þó ekki að hætta vegna þessa. Ég tel mig hafa skilað þessu ágætlega af mér. Sjávarmál er orðið 30 ára gamalt fyrirtæki og gengið vel. En það er eitthvað annað til í lífinu en þetta,“ segir Guðjón.
Hjá Sjávarmáli voru sex stöðugildi, þar af fjögur til sjós. Starfsmönnum var sagt upp síðastliðið haust. Salan á fyrirtækinu kom því starfsmönnum ekki á óvart. Hásetarnir fengu kauptryggingu í einn mánuð þótt þeir hefðu allir verið komnir í aðra vinnu og skipstjórinn í tvo mánuði. „Ég vona bara að lendingin verði sú að útgerðin verði áfram hérna heima og ég hef taugar til þess. Ég er fæddur og uppalinn í Sandgerði og mest allan tímann verið við sjómennsku að undanskildum fótboltaárunum mínum,“ segir Guðjón sem var ásamt Júlíusi Jónssyni, fyrrverandi forstjóra Hitaveitu Suðurnesja, og fleirum burðarásinn í vörn Reynis frá Sandgerði.