Hörður Þór Benediktsson hjá Strandsýn segir að tækið hafi verið í prófun í núna í fjögur ár og upp hafi komið smá hnökrar á þessu tímabili sem hafa verið lagaðir jafnóðum. Ný sé strandvarinn tilbúin vara og var afhent fyrsta kaupanda, sem fyrr segir, í síðustu viku. Tækið fæst hjá Skiparadíó.

„Tækið er með GPS-punkta af strandlengju Íslands, eyjum og skerjum og reiknar út sjávarstöðu (flóð/fjara) þegar grynningar eru framundan. Það er líka með upplýsingar um boða/kletta sem fara á kaf á flóði og um stórstreymsfjöru þar sem útfiri er mikið.“

Hugmyndin kviknar

Tækið varar við grynningum löngu áður en dýptarmælir skipsins greinir þær. Þá þekkir tækið allar hafnir landsins og innsiglingar í hafnir og gefur því ekki viðvörun þegar lagt er að hafnarbakka. Tækið gefur heldur ekki viðvörun ef réttri siglingaleið er fylgt þó að siglt sé nærri hafnarmannvirkjum.

Búnaðurinn er með innbyggt GPS-tæki og auk þess tengdur GPS- og AIS-tækjum skipsins, sem jafnframt gefur kost á því að tækið vari við árekstri við önnur skip. Tækið getur líka tengst dýptarmæli og áttavita.

Hörður segir hugmyndina hafa kviknað þegar báturinn Jónína Brynja strandaði við Straumnes í nóvember 2012. Hann hafi heyrt í útvarpinu þá að á fyrsta áratug þessara aldar hefðu 27 bátar og skip strandað hér við land vegna þess að menn sofnuðu við stýrið.

„Þó að menn séu með fullkomin siglingatæki í brúnni, þá eru þau ekki alltaf stillt til að gefa viðvörun,“ segir Hörður. „Mér fannst vanta tæki sem væri alltaf á verði, án þess að það þyrfti að stilla það á nokkurn hátt og væri þeim eiginleikum búið að gefa ekki falskar viðvaranir.“

Fréttin birtist upphaflega í öryggisblaði Fiskifrétta 20. janúar.