Bókin Saga netagerðar á Íslandi er komin út. Það er Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM) sem stóð að vinnslu og útgáfu bókarinnar. Félagið réð til verksins Sigurgeir Guðjónsson sagnfræðing og honum til aðstoðar var Valgeir Ómar Jónsson, vélfræðingur frá VM, sem annaðist myndstjórn bókarinnar. Ritnefnd skipuðu þeir Ágúst Ingimarsson, Guðmundur Gunnarsson og Lárus Þór Pálmason netagerðarmeistarar, allir með áratuga reynslu í faginu.

Frá útkomu bókarinnar segir á heimasíðu Hampiðjunnar, en það var Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra sem veitti fyrsta eintakinu viðtöku. Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, tók sömuleiðis við eintaki og sagði frá samtvinnaðri sögu fyrirtækisins og netagerðarfagsins. Sú iðnmenntun væri einstök á heimsvísu og hefði veitt Hampiðjunni forskot og átt þátt í vexti fyrirtækisins erlendis. Það ásamt tæknilegri framleiðslu á veiðarfæraefnum hefði gert Hampiðjunni kleift að verða stærsta veiðarfærafyrirtæki heims. Hann sagði einnig við það tækifæri að Hampiðjan myndi kaupa 80 eintök af bókinni til að gefa starfsmönnum fyrirtækisins á Íslandi.

Á heimasíðu VM segir að bókin fjalli um fiskveiðar og veiðitækni við Ísland frá landnámi til vorra daga. Netaveiðar hafi verið stundaðar hér við land frá upphafi byggðar. Selveiðar fyrst í stað, og síðar einnig fiskveiðar. Upp úr miðri 18. öld var farið að veiða í þorskanet. Hófst sú veiði í Skagafirði en var síðar í Faxaflóa. Það var Skúli fógeti sem kom með fyrstu þorskanetin frá Noregi. Um aldamótin 1900 hófust síldveiðar í nót og fljótlega upp úr aldamótum komu togarar og hófust þá veiðar í troll. Um það leyti var einnig farið að veiða í snurvoð og ýmiss konar gildrur, einkum við Norðurland og á Austfjörðum.

Um aldir lærðu menn hver af öðrum listina að ríða net, synir lærðu af feðrum sínum o.s.frv. Það var svo árið 1927 sem netagerð varð löggild iðngrein. Þá var farið að stofna netaverkstæði víða um land þar sem ungt fólk gat komist á samning og fengið starfsheitið netagerðarmaður. Bylting varð í netagerð þegar farið var að framleiða net úr gerviefnum.

Eftir að netagerð varð að iðngrein var stofnað Sveinafélag netagerðarmanna, sem nefnt var Nót. Sá félagið um samningagerð o.fl. fyrir félagsmenn á landsvísu. Með tilkomu fjölbrautaskólanna á áttunda áratug síðustu aldar var samin námsskrá sem gerði kennslu í netagerð hnitmiðaðri. Nafni netagerðarinnar hefur nú verið breytt og heitir fagið veiðarfæratækni, enda eru veiðarfæri orðin mjög fjölbreytt og tæknileg.