Í Svíþjóð rétt eins og í öðrum löndum Evrópu fer fiskimönnum fækkandi ár frá ári. Aldamótaárið 2000 voru 2.300 skráðir atvinnufiskimenn í landinu en nú hefur þeim fækkað í 1.600 eða um 30%.

Yfirvöld segja þessa þróun afleiðingu af hagræðingu í flotanum, minnkandi arðsemi í útgerð og því að sumir fiskistofnar hafa skroppið saman.

Í fiskiskipastól Svía eru aðallega bátar af smærri gerðinni en stórum öflugum fiskiskipum hefur fækkað um helming frá árinu 2009 eða úr 81 í 35.

Frá þessu er skýrt á vefsíðu Gautaborgarpóstsins.