,,Við komum hingað í Fjallasjóinn klukkan 10 í morgun og erum búnir að taka eitt kast sem gaf 200 tonn. Loðnan er að byrja að móta sig eftir myrkrið og bræluna. Það er skánandi veður og það ætti að verða friður til veiða í dag og kannski eitthvað fram á morgundaginn,“ sagði Bergur Einarsson skipstjóri á Hoffelli SU þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn um hádegisbilið í dag.
Sem kunnugt er hefur verið óvenjulegt ástand á loðnunni að undanförnu, loðnan dreifð og veiðarnar tafsamar. Bergur var spurður hvort einhver aukinn kraftur væri að færast í veiðarnar núna.
,,Já, þetta virðist vera eitthvað skárra en verið hefur, eitthvað þéttara lóð samanborið við ástandið þegar ég var úti síðast. Á þessum tíma ætti hins vegar að vera mokveiði, en því er ekki að heilsa,“ sagði Bergur.
Að sögn Bergs er heldur meiri hraði á vesturgöngu loðnunnar núna en var þegar hún hélt sig í Meðallandsbugtinni. Um 15 loðnuskip erum nú að veiðum á loðnumiðunum.