Systurskipin frá Vestmannaeyjum, Vestmannaey VE og Bergur VE, hafa að undanförnu lagt áherslu á að veiða annað en þorsk. Bergur landaði fullfermi í Eyjum sl. mánudag og Vestmannaey einnig fullfermi í gær. Rætt var við skipstjóra á báðum skipum á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Jón Valgeirsson á Bergi var ánægður með túrinn. „Aflinn hjá okkur var mest ufsi og karfi. Við vorum að veiðum í Reynisdýpinu út af Hjörleifshöfðanum og þarna var bara ágætis nudd. Við vorum að veiðum í tvo og hálfan sólarhring þannig að við höfum engin efni á að kvarta neitt. Veðrið var allt í lagi mest allan tímann en það var austan bræla í hálfan sólarhring. Haldið verður til veiða strax að löndun lokinni og þá kíkjum við líklega á Pétursey og Vík,” sagði Jón.

Jón Valgeirsson í brúnni. Mynd/Óskar P. Friðriksson
Jón Valgeirsson í brúnni. Mynd/Óskar P. Friðriksson

Öll fiskabókin í lestinni

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að túrinn hjá þeim hefði verið í lengri kantinum. „Við vorum að veiðum í fimm og hálfan sólarhring og það var víða farið. Við byrjuðum á Broadway vestan við Eyjar en þar var ekkert, síðan var grunnslóðin keyrð, tekin tvö hol á Síðugrunni og síðan prófað á Höfðanum. Þar var lítið að hafa. Síðan var farið í Breiðamerkurdýpið og þar var einnig lítið. Haldið var í Sláturhúsið og á Skerbleyðuna og þar var þetta áfram smásarg. Leiðin lá aftur á Höfðann og þar gátum við fyllt. Staðreyndin er sú að fiskur er ekki genginn á hefðbundnar vertíðarslóðir og það er til dæmis afar lítið að hafa við Eyjar. Það virðist vera ætisleysi á miðunum. Við sáum enga loðnu í túrnum nema austast. Aflinn hjá okkur í túrnum var ótrúlega fjölbreyttur. Við erum nánast með alla fiskabókina í lestinni, ég held að tegundirnar séu 18 talsins. Það verður farið út strax að löndun lokinni. Það þýðir ekkert annað en að halda sér við efnið. Nú er Vestmannaey að fara í níunda túr ársins en í fyrra fórum við níu túra bara í febrúar. Það er lengra að sækja en í fyrra og veður hefur verið óhagstæðara. Það gengur á ýmsu í þessu,” sagði Birgir Þór.

Birgir Þór Sverrisson skipstjóri á Vestmannaey VE 54. Mynd/Guðmundur Alfreðsson
Birgir Þór Sverrisson skipstjóri á Vestmannaey VE 54. Mynd/Guðmundur Alfreðsson