Fáar hindranir eru nú í vegi þess að stórfyrirtækið Merlin Entertainments, í samvinnu við bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum, flytji til Eyja mjaldra frá dýragarði í eigu fyrirtækisins í Sjanghæ í Kína og búi þeim framtíðarheimili
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir heimamenn líta á verkefnið sem víðtækt tækifæri á mörgum sviðum, ekki síst í ferðaþjónustu, háskólastarfi og hafrannsóknum.
Frá Kína
Það var strax í desember í fyrra sem Fréttablaðið sagði frá áhuga Merlin á því að flytja dýrin til Vestmannaeyja – og samvinnu bæjaryfirvalda við fyrirtækið um að koma upp hvalaathvarfi í Vestmannaeyjum. Hvalirnir sem um ræðir hafa verið í skemmtigarði í Kína undanfarin ár, en Merlin erfði þá þegar garðurinn var keyptur. Fyrirtækið, á forsendum dýravelferðar, hefur mótað þá stefnu að hvalir og höfrungar sem teknir eru úr villtri náttúru séu ekki sýningardýr. Á grunni þess hófst leit að framtíðar verustað fyrir hvalina þrjá, og meðal annars haft samband við Eyjamenn.
„Á sama tíma vorum við hjá Vestmannaeyjabæ og Þekkingarsetrinu hér að leita að heppilegum alþjóðlegum samstarfsaðilum til að styðja við þá uppbyggingu sem hér er unnið að á vettvangi sjávarrannsókna, háskólastarfs og ferðaþjónustu,“ segir Elliði í skriflegu svari til Fiskifrétta. Hann bætir við að verkefnið sé í senn risa skref í ferðaþjónustu fyrir heimamenn og á sama tíma dýravelferðarverkefni sem ekki á sinn líkan, og verðugt að taka þátt í.
Einstakt tækifæri
„Þegar Merlin nálgaðist okkur með hugmyndina áttuðum við okkur snemma á því að hér væri um einstakt tækifæri að ræða. Þarna er komið fyrirtæki sem er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki í heimi og býr því yfir tengingum og tækifærum sem við gætum vart látið okkur dreyma um. Í viðbót við það þá hafa þeir á snærum sínum stór teymi af vísindamönnum sem sérhæfa sig í rannsóknum og eftirliti með sjávardýrum og geta því stutt vel við bakið á þeirri stefnu sem við vinnum nú að hvað varðar Þekkingarsetrið og nýjan sjávar- og þekkingarklasa í Fiskiðjuhúsinu,“ segir Elliði en fyrst hafði fyrirtækið samband fyrir tveimur árum í leit sinni að framtíðarheimili fyrir dýrin. Þá kom Kanada til greina, einnig Skotland og fleiri lönd.
Elliði segir að gott samband hafi náðst fljótlega við forsvarsmenn Merlin og viljayfirlýsing hafi verið undirrituð, sem þó var bundin trúnaði á þeim tíma.
„Síðan þá höfum við unnið hörðum höndum að stefnumótun fyrir þetta einstaka verkefni og ánægjulegt að sjá hversu langt við erum komin.“
Gestastofa með sædýrasafni
Nálgun verkefnisins hefur allan tíman haft dýravelferð að leiðarljósi og sérstök áhersla lögð á að sýna eðlilegt atferli dýranna og búa þeim sem náttúrulegasta umhverfi, segir Elliði.
„Eitt af því sem er til skoðunar er að koma upp veglegri gestastofu með sædýrasafni á hafnarsvæðinu í Vestmannaeyjum þar sem bæði verða til sýnis lifandi fiskar, sögð saga mjaldranna og fleira. Þá er einnig áhugaverður vinkill sem við höfum verið að skoða sem snýst um að koma einnig upp athvarfi fyrir lundapysjur sem ekki geta lifað í villtri náttúrunni og þeim þess í stað gefið líf sem sýningadýrum við sem náttúrulegastar aðstæður,“ segir Elliði og bætir við að tækifærin sem þessu gætu fylgt séu afar fjölbreytt.
Í fyrsta lagi verði um stóran vinnustað að ræða – og þeirra á meðal sé nauðsynlegt að hafa sérfræðinga á breiðu sviði; sjávarlíffræðinga, hvalasérfræðinga og dýralækna svo dæmi séu nefnd.
Einstakt tækifæri
Verkefnið virðist einstakt og eins og gefur að skilja er í kringum það flókin stjórnsýsla, leyfisveitingar og fleira. Ferlið er tafsamt en Elliði segir það ekki draga úr mönnum.
„Hingað til hefur verkefninu verið vel tekið af öllum þeim sem um það hafa fjallað en eftir sem áður er mikilvægt að hafa í huga að enn eru ljón í veginum og margt sem getur orðið til að hleypa keng í málið. Ekkert er því klappað í stein þótt sannarlega bindum við vonir við að vel gangi hér eftir sem hingað til,“ segir Elliði en um víðtækt tækifæri er að ræða til að þróa þekkingarumhverfi Vestmannaeyja, háskólastarf, hafrannsóknir svo ekki sé talað um þá fjölbreyttu möguleika sem skapast fyrir fjölda fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Rándýrt
Fyrirtækið Merlin hélt kynningarfund í Vestmanneyjum á dögunum. Þar varð öllum ljóst hversu mikill hugur er að baki verkefninu, og kostnaður við uppbyggingu mun ekki hlaupa á tugum heldur hundruðum milljóna króna því ekkert verður til sparað við að gera aðstöðu hvalanna þriggja eins góða og í mannlegu valdi stendur.