Aflamark vegna veiða á sæbjúgum fiskveiðiárið 2024/2025 var ekki gefið út fyrr en næstum heill mánuður var liðinn af kvótaárinu. Hagsmunaaðilar hafa beint því til stjórnvalda að framvegis verði kvótinn gefinn út um áramót til að eyða óvissu í veiðunum. Umtalsverður niðurskurður var tilkynntur í aflaheimildum frá fyrra ári og á sama tíma er markaður fyrir sæbjúgu í Kína frosinn.

13% samdráttur

Hafrannsóknastofnun hefur gefið út kvóta fyrir átta svæði, þ.e. Faxaflóa, Breiðafjörð, þrjú svæði á Vestfjörðum og önnur þrjú á Austfjörðum. Samtals er útgefinn kvóti tæp 2.300 tonn sem er um 13% samdráttur frá fyrra ári. Þetta er heldur ekkert í líkingu við það sem veiddist þegar veiðar voru frjálsar og ólympískar veiðar fóru fram allt fram að kvótasetningu sæbjúgna árið 2022. Fyrir kvótasetningu námu veiðarnar allt að 6 þúsund tonnum af ári. Þá var Hafnarnes-VER í Þorlákshöfn að vinna tæplega 4 þúsund tonn af sæbjúgum á ári. Á síðasta ári nam vinnslan hjá fyrirtækinu 1.400 tonnum. Eftir skerðinguna núna verða unnin nálægt 1.200 tonn hjá Hafnarnesi-VER.

Útflutningsverðmætin hrunið

Ólafur Hannesson, framkvæmdastjóri Hafnarness-VERS, segir að menn í greininni hafi sjálfir komið sér saman um magnið sem útgerðirnar skiptu á milli sín áður en sæbjúgun voru kvótasett. Hann segir að þetta hafi verið eins og „villta vestrið“ og það hafi verið eina skynsamlega leiðin að setja sæbjúgu í kvóta. Áður en sæbjúgu voru kvótasett voru útflutningsverðmætin á milli 1-2 milljarðar króna á ári. Eftir kvótasetningu hlaupa þau á nokkur hundruðum milljóna króna. Þátt í þessari miklu breytingu á líka verðlækkun á afurðunum sem varð í Covid 19 og aftur núna vegna efnahagsástandsins í Kína.

„Við sem erum í greininni furðum okkur samt dálítið á þessum niðurskurði. Það er verið að skera niður aflaheimildir á svæðum um 20-30% á svæðum þar sem veiðar hafa gengið sérstaklega vel eins og á miðsvæðinu fyrir austan þar sem niðurskurðurinn er um 18%. Svo hefur gengið mjög vel á norðursvæðinu fyrir austan og þar er skorið niður um 30%. Á miðsvæðinu fyrir vestan er farið úr 74 tonnum í 50 tonn. Á móti er bætt í á suðursvæðinu fyrir austan sem er svæði sem hefur mætt afgangi hjá okkur vegna þess að hin svæðin hafa verið mun þægilegri til sóknar,“ segir Ólafur Hannesson, framkvæmdastjóri Hafnarness-VERS sem er með rúmlega helming sæbjúgnakvótans í landinu. Fyrirtækið gerir út bátinn Jóhönnu ÁR til þessara veiða.

Ólafur Hannesson, framkvæmdastjóri Hafnarness-VERS, vill skilvirkari vinnubrögð frá hinu opinbera.
Ólafur Hannesson, framkvæmdastjóri Hafnarness-VERS, vill skilvirkari vinnubrögð frá hinu opinbera.

Vanþekking á tegundinni

Hafrannsóknastofnun stendur fyrir einu ralli í ágúst á hverju ári til að kanna útbreiðslu sæbjúgna. Ráðgjöfin er síðan að stærstu leyti ákveðin út frá þessu ralli. Þetta telja menn innan greinarinnar leiða til innbyggðs og sjálfkrafa niðurskurðar í aflaheimildum nema mælingar gangi þeim mun betur. Þörf sé á mun meiri rannsóknum til þess að stýra þessum veiðum.

„Það er þarna ekki eingöngu við Hafrannsóknastofnun að sakast sem hefur eingöngu úr ákveðnu fjármagni að spila. En það er ákveðin vanþekking á tegundinni sem gerir það að verkum að fiskifræðingar eru varkárari en þeir ættu í raun að vera. Þarna vantar kannski líka upp á að hlustað sé á sjónarmið þeirra sem stunda þessar veiðar.“

Auk Hafnarness-VERS eru það aðallega þrír aðrir aðilar sem nýta sér þessa auðlind, þ.a. Aurora Seafood, Royal Iceland og Eimar Einarsson frá Akranesi.

Úr 1.000-2.000 tonnum í 50

Ólafur segir að framtíð þessara veiða byggist að talsverðu leyti á því að hið opinbera horfi á málin frá víðara sjónarhorni. Það vilji brenna við að formfestan sé of mikil eins og í tilfelli sæbjúgna sem eru ekki hluti af stóru myndinni í fiskveiðistjórnuninni. Eðlilega sé ekki enn mikill skilningur á veiðum og vinnslu á sæbjúgum því þetta sé ennþá fremur óþekkt tegund í nýtingu hér við land. Þegar stjórnsýslan verði komin á þann stað að haga málum þannig að veiðar á sæbjúgum lúti sömu lögum og reglum og aðrar tegundir megi leyfa sér að vera bjartsýnn á framtíð þessara veiða.

„Veiðarnar ganga bara vel og ekkert út á þær að setja. Fyrir vestan eru miklir vaxtarmöguleikar. Á miðsvæðinu þar voru veidd vel 1.000-2.000 tonn á ári þegar veiðar voru frjálsar. Samkvæmt nýjustu ráðgjöfinni má veiða þar 50 tonn á ári. Þarna fer því ekki saman hljóð og mynd þegar kemur að veiðunum. Þegar veiðisvæðin voru hólfasett var það hrein ágiskun hve mikið ætti að veiða í hverju hólfi. Það lágu aldrei nein vísindaleg gögn að baki þeim ákvörðunum. Það hefur enginn meiri hagsmuni af því að viðhalda tegundinni en við sem lifum á þessum veiðum.“