„Ljósátan var þarna út um allt í fjörunni í Brandsvík og í Hjálmarsvör og sennilega eitthvað víðar. Hún er gulleit eins og rækja en mun minna kríli. Það gerði vont veður hérna og henni hefur einfaldlega skolað á land,“ segir Kristmundur Kristmundsson.

Kristmundur stundar strandveiðar frá Norðurfirði á Ströndum á Lunda ST 11 og var kominn með skammtinn þegar hann tók símann um hádegisbilið. Hann sagði veiðina hafa verið alveg ágæta þótt stundum hafi vantað nokkur kíló upp á skammtinn. Ljósáta sé oft í fiski en hann hefur aldrei áður séð ljósátu skolast upp á fjöru í svona magni. Kristmundur hefur verið á strandveiðum frá því þær hófust árið 2009. Hann á hús á Gjögri og býr þar helminginn úr árinu.

„Það hefur verið töluvert um hval hérna og hann hefur væntanlega verið að gæða sér á átunni. Það hefur líka borið á henni í fiskinum en þó ekki mikið. Seinnipart sumars er oft mikið um ljósátu hérna og það veit bara á gott. Stóri fiskurinn gengur hingað inn eftir henni. Hvalurinn hefur uppgötvað þetta á undan þorskinum og það er mikið um hval á miðunum,” segir Kristmundur.

Sjórinn sauð af fiski

Rúnar Sörensen býr ásamt konu sinni, Guðrúnu Thorarensen, á Gjögri yfir sumartímann. Hann gekk fram á ljósátuna í fjörunni með barnabarni sínu og taldi í fyrstu að þarna væri um ungrækju að ræða. Við fyrstu sýn eru þetta kannski ekki svo ólíkar tegundir en elstu menn á Ströndum rekur ekki minni til þess að ljósátu hafi skolað upp í fjörurnar í þessu magni áður.

Rúnar Sörensen í aðgerð. MYND/AÐSEND
Rúnar Sörensen í aðgerð. MYND/AÐSEND

„Ég gekk þarna inn í Brandsvíkina með barnabörnunum og fjaran var gersamlega þakin ljósátu. Þetta var gríðarlegt magn og sá varla í sandinn. Ég hélt í fyrstu að þetta væri lítil rækja. Þeir tittir sem ég fékk þegar ég fór út á bátnum voru troðnir af þessu. Sjórinn sauð af fiski hérna við klettinn rétt hjá mér og augsýnilega mikil veisluhöld í gangi. Ég hélt fyrst að þetta væri síld eða makríll en svo var ekki. En þrátt fyrir mikið líf í hafinu hef ég aldrei séð jafn lítið af fugli hér í Reykjarfirði. Það var stórt kríuvarp hérna meðan búseta var á Gjögri en refurinn rústaði því þegar heilsársseta lagðist af. Krían færði sig þá inn að Kjörvogi þar sem var búið allt árið,” segir Rúnar.

Aldrei séð neitt viðlíka

Ólafur Thorarensen kveðst aldrei hafa vitað af náttúrufyrirbæri eins og þessu. Ólafur er fæddur og uppalinn undan Gjögri. Faðir hans og Karl Thorarensen voru bræður en Karl var faðir Guðrúnar, eiginkonu Rúnars Sörensen. Eiginkona Karls var Regína Emilsdóttir Thorarensen, sem lengi var fréttaritari Morgunblaðsins.

„Ég er nú orðinn 85 ára gamall og hef aldrei vitað af svona landburði af ljósátu á þessu svæði. Ég hef aldrei séð neitt viðlíka áður né heyrt talað um að atburð af þessu tagi. Ég hélt fyrst að þetta væri bara gabb en myndirnar lugu ekki. Ég þekkti staðinn þar sem myndirnar eru teknar,” segir Ólafur.

Hann réri trillu frá Norðurfirði í yfir 50 ár en flutti vestur á Ísafjörð fyrir um 30 árum. Hann hélt áfram að róa frá Norðurfirði yfir sumartímann. Hann hætti í útgerð fyrir sex árum og seldi þá kvótann sem var á bátnum.

Rúnar Sörensen býr yfir sumartímann á Gjögri. Mynd/aðsend