Rússneskir landamæraverðir, sem voru á æfingu í Barentshafi fyrir nokkrum vikum síðan, komust á snoður um afar sérstæðan veiðiþjófnað.
Á æfingunni fóru þeir framhjá rússneska hafrannsóknaskipinu Heidi. Vakti það grunsemdir þeirra að menn úr áhöfninni voru að fleygja sekkjum fyrir borð.
Við nánari eftirgrennslan og nákvæma leit í skipinu fundu landamæraverðirnir 170 kíló af kóngakrabba, stærstur hlutinn kvendýrið og ungir krabbar, þ.e. krabbar sem menn helst vilja friða. Þessi fengur var gerður upptækur sem ólöglegur afli.
Heidi er í eigu rússnesku hafrannsóknastofnunarinnar PINRO. Vísindamenn frá þessari sömu stofnun lögðu einmitt nýlega til að veiðar á kóngakrabba í Barentshafi yrðu bannaðar það sem eftir lifði ársins. Sérstaklega er tekið fram í tillögunni að mikilvægast sé að hlífa kvendýrinu og ungviðinu til að varðveita krabbastofninn.
Norska sjónvarpið segir frá þessu í frétt og vitnar í rússneska blaðið Komsomolskaja Pravda.