Frá og með deginum í dag, 30. apríl, er Rússlandi tímabundið vikið úr Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES). Fulltrúaráð ICES samþykkti þetta og sendi frá sér yfirlýsingu um málið.

„Frá því stríðið í Úkraínu hófst hafa aðildarríki ráðlagt vísindamönnum sínum og fulltrúum að annað hvort hunsa eða forðast þátttöku í allri starfsemi sem fulltrúar Rússlands eru með í,“ segir í yfirlýsingunni.

Í dag var síðan ákveðið að víkja Rússum tímabundið úr ráðinu, en framkvæmdastjórn ICES mun „fylgjast með stöðunni og leggja til, þegar viðeigandi þykir, að afturkalla þessa brottvikningu.“

Alls eiga tuttugu strandríki við Norðaustur-Atlantshaf aðild að ráðinu, þar á meðal Ísland. Hafrannsóknastofnun á í nánu samstarfi við ICES um rannsóknir og ráðgjöf um veiðar.

„Til þess að standa við verkefni okkar og skyldur við þá sem óska eftir ráðgjöf frá ICES þurfum við víðtækt samstarf við lykilsérfræðinga í störfum okkar,“ segir í yfirlýsingunni. „Stríðið í Úkraínu grefur undan þessu víðtæka samstarfi í mörgum fjölþjóða vísindastofnunum, þar á meðal ICES.“