Rússar undirbúa nú að ganga úr Alþjóðahafrannsóknaráðinu, ICES. Ráðið á sér 60 ára sögu og stendur að rannsóknum og vísindalegri ráðgjöf um veiðar á alþjóðagrundvelli. Þótt ráðgjöfin sé ekki bindandi fyrir aðildarþjóðir getur útganga Rússa úr ráðinu fræðilega séð dregið úr úthlutun á veiðikvótum til þeirra þótt ólíklegt sé talið að útgangan hafi áhrif á veiðar Rússa til skemmri tíma litið.
ICES hefur meinað Rússum þátttöku í starfi ráðsins frá því í mars 2022 og voru það viðbrögð þess við innrás Rússa í Úkraínu sem hófst í febrúar sama ár. Rússnesk stjórnvöld hafa ítrekað farið fram á það að þeim verði heimiluð þátttaka í Alþjóðahafrannsóknaráðinu en það hefur ekki borið árangur.
Aðildarþjóðirnar eru 20 talsins, þar á meðal Rússland. Hlutverk ráðsins er að leiðbeina aðildarþjóðunum við úthlutun veiðikvóta með vísindalegri ráðgjöf um vistkerfi hafsins. Aðild að stofnsamningi ráðsins frá 1964 eiga strandríki við Norður-Atlantshafið, þar með talin Eystrasaltsríkin.
Leiðbeinandi – ekki bindandi
Frumvarp um úrgöngu Rússa úr ráðinu var lögð fyrir Dúmuna, neðri deild rússneska þingsins, 1. ágúst síðastliðinn, degi eftir að ríkisstjórnin samþykkti tillögu um að segja upp ICES-samþykktinni. „Ákvarðanir ICES eru leiðbeinandi en ekki bindandi,“ segir Konstantin Drevetnyak, framkvæmdastjóri Sambands sjómanna á norðursvæðum, í samtali við IntraFish. „Engu að síður er tillit tekið til ráðgjafar ráðsins af alþjóðlegum sjávarútvegsstofnunum.“
Þannig hefur ICES veitt Rússum ráðgjöf um veiðar úr fiskistofnum í Barentshafi og Eystrasaltinu sem hefur haft áhrif á ráðgjöf innlendra stofnana um aflaheimildir í stærstu bolfisk- og uppsjávartegundum. „Það er erfitt að ímynda sér hvernig útganga Rússa úr ICES geti haft áhrif á þátttöku landsins í alþjóðlegum stofnunum og tvíhliða samningum á sviði sjávarútvegsmála. En það gæti reynst erfiðara fyrir okkur að verja hagsmuni okkar þegar við eigum ekki lengur aðild að ráðinu,“ sagði Drevetnyak.