Nokkrir íslenskir framleiðendur sjávarafurða hafa fengið tímabundið bann við innflutningi á fiskafurðum til Rússlands. Í þeirra hópi eru meðal annars stór fyrirtæki og skip í vinnslu á uppsjávarfiski, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Fyrirtækin sem hér um ræðir eru Frostfiskur, verksmiðja HB Granda á Vopnafirði, Huginn VE, Ísfiskur, Skinney-Þinganes og Vinnslustöðin. Tveir aðilar eru auk þess í sérstöku athugunarferli, þ.e. Gnúpur GK og Loðnuvinnslan.

Á sínum tíma framseldi Tollabandalag Rússlands og fleiri ríkja heimild til Matvælalstofnunar Íslands til að skoða og taka út vörur hjá íslenskum fyrirtækjum sem mega flytja afurðir sínar til Rússlands. Þannig hefur þetta verið í nokkur ár. Fulltrúar Tollabandalagsins komu síðan til landsins í haust og gerðu þá sérstaka úttekt á nokkrum íslenskum fyrirtækjum og kemur innflutningsbannið í kjölfar þess.

Fiskifréttir hafa heimild fyrir því að grunsemdir séu uppi um að tímabundnar lokanir á innflutningsleyfi verði ekki eingöngu skýrðar með þeim athugasemdum sem fram hafa komið frá rússneskum heilbrigðisyfirvöldum. Heldur búi aðrar hvatir að baki og hugsanlega viðskiptalegar.

Hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi því samkvæmt viðtölum Fiskifrétta við menn í greininni má ætla að 15 til 20% af tekjum uppsjávarfyrirtækja verði til með sölu á afurðum til Rússlands.

Sjá nánar úttekt í nýjustu Fiskifréttum.