Rússar munu  ekki láta það yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust að norska strandgæslan taki rússnesk fiskiskip á alþjóðlegu hafsvæði á Svalbarðasvæðinu, sagði Andrej Krainij formaður rússnesku samninganefndarinnar um skiptingu fiskveiðiheimilda í Barentshafi á fundi nefndarinnar með norskum fulltrúum fyrir skemmstu. Hann bætti því við að ef þessu héldi áfram neyddust Rússar til að grípa til samsvarandi aðgerða gegn norskum skipum.

Í viðtali við rússneskt dagblað gekk Krainij skrefinu lengra og sagði að Rússland gæti gripið til ýmissa ráða til þess að hafa áhrif á gang mála. ,,Þar nægir að minna á að Rússland er stærsti markaður Norðmanna fyrir sjávarafurðir. Þið getið dregið ykkar eigin ályktanir af þeim orðum,” sagði Krainij í samtali við blaðið Rybatskaya Gazeta.

Ástæðan fyrir þessum hörðu viðbrögðum er taka rússneska togarans Saphire II fyrir skemmstu en norska strandgæslan stóð hann að brottkasti á fiski í Svalbarðalögsögunni. Þetta er ekki fyrsta sinn sem norska strandgæslan tekur rússneska togara fyrir fiskveiðilagabrot í seinni tíð.