Þrettán norsk fyrirtæki af 35 sem selt hafa eldislax til Rússlands hafa fengið tilkynningu frá rússneskum yfirvöldum um að innflutningsleyfi þeirra hafi verið afturkölluð. Skýringin sem Rússarnir gefa er sú að fyrirtækin sem um ræðir standist ekki rússneskar heilbrigðiskröfur. Norsku fyrirtækin hafa aldrei áður fengið neinar athugasemdir frá rússneskum yfirvöldum hvað þetta varðar.

Norska matvælaeftirlitið hefur ekkert viljað tjá sig um málið en í Fiskeribladet/Fiskaren er látið að því liggja að annað búi að baki þessum aðgerðum en það að heilbrigðisháttum norsku fyrirtækjanna sé ábótavant. Annars vegar er getum að því leitt að Rússar vilji  takmarka fjölda þeirra fyrirtækja sem þeir skipti við svo þeir hafi betra eftirlit með þessum viðskiptum og hins vegar að verið sé að vernda innlenda framleiðendur.

Rússland er annað tveggja stærstu viðskiptalanda Noregs með eldislax og því setja þessar aðgerðir verulegt strik í reikninginn í þessari grein.