Endurnýjun rússneska fiskiskipaflotans hefur lengi setið á hakanum og því gæti svo farið að samdráttur yrði í afla rússneskra skipa í næstu framtíð af þeim sökum. Þetta kemur fram í skýrslu sem yfirmaður rússnesku fiskimálstofnunarinnar (Russian Federal Fisheries Agency) hefur sent frá sér og greint er frá í breska sjávarútvegsblaðinu Fishing News International.
Flest skipanna í flotanum eru frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar og því orðin 35-45 ára gömul. Um 70% allra fiskiskipanna eru gerð út frá Kyrrahafsströnd Rússlands og þar er talið nauðsynlegt að taka 65% veiðiskipa og 40% vinnsluskipa úr rekstri á næstu fimm árum. 18% skipanna eru þegar komin fram yfir sinn líftíma.
Áformað er að hrinda af stað sameiginlegu átaki útgerða og ríkisins í endurnýjun flotans og er útgerðarfélögum í Austur-Rússlandi gert að leggja til hliðar 15-20% af tekjum sínum í því skyni. Á móti mun ríkið falla frá skattlagningu á þetta fé og leggja fjármuni í innviði og uppbyggingu skipasmíðastöðva til þess að draga úr kostnaði við smíði nýrra skipa. Á fimm ára tímabili er áætlað að útgerðirnar í A-Rússlandi leggi fram sem svarar 12 milljörðum dollara til endurnýjunar flotans eða jafnvirði 250 milljarða íslenskra króna.