Á ársfundi NA-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) sem haldinn var í síðustu viku kom ekkert fram af hálfu Rússa sem gaf til kynna að þeir ætli að gerast aðilar að samkomulagi hinna ríkjanna um úthafskarfaveiðar á næsta ári. Því má búast við að þeir setji sér einhliða aflamark fyrir árið 2012, segir í frétt frá sjávarútvegsráðuneytinu.

Sem kunnugt er náðu strandríkin, Ísland, Færeyjar og Grænland, ásamt Evrópusambandinu og Noregi samkomulagi fyrr á árinu um stjórnun veiða úr úthafskarfastofnunum sem gildir út árið 2014. Samkomulagið  miðar að því færa aflamark niður að ráðgjöf vísindamanna, sem hefur verið 20 þús. tonn undanfarin ár. Því samkomulagi mótmæltu Rússar og settu sér einhliða aflamark upp á 29.480 tonn fyrir árið 2011.

Á fundinum voru staðfestir samningar strandríkja um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og kolmunnastofninum sem gerðir voru í október síðastliðnum. Einnig var gengið frá samningi um veiðar á karfa í Síldarsmugunni. Þar var aflamark lækkað milli ára úr 7.900 tonnum í 7.500 tonn. Hefja má veiðar 15. ágúst og verða þær opnar NEAFC aðildarríkjum þar til því aflamarki er náð. Íslenskar útgerðir hafa ekki sýnt þessum veiðum neinn áhuga á síðustu árum enda aflinn verið tregur.