Rússar ætla að auka hlut sinn verulega í veiðum á heimshöfunum utan eigin lögsögu, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá rússneska sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Frá þessu er greint á vef WorldFishing.

Þessum áætlunum á að hrinda í framkvæmd samhliða áður boðuðum áformum um auknar veiðar í Norður-Atlantshafi, sérstaklega við Grænland og Færeyjar.

Sérstök áhersla verður lögð á að auka sókn rússneskra skipa á hafsvæði um miðbik Atlantshafsins og í Suður-Atlantshafi. Meðal annars verða veiðar við Marakkó og Máritaníu auknar. Rússnesk skip hafa getu til að veiða 5,5 milljón tonna af fiski á ári utan eigin lögsögu og 4,5 milljónir tonna af ljósátu.

Til að ná settu marki ætla rússnesk stjórnvöld að hefja endurnýjun á fiskiskipaflotanum sem var einn sá stærsti í heimi á tímum Sovétríkjanna. Þá voru um 3.500 skip í flotanum. Skipum hefur fækkað ört síðan og eru þau nú aðeins 1.200.

Stefnt er að því að fram til ársins 2020 verði smíðuð 493 ný fiskiskip og 14 stöðvar byggðar í landi til að taka á móti fiski. Einnig á að stórauka rannsóknir, einkum í Kyrrahafi og Indlandshafi.

Í fyrstu verður varið um 300 milljónum dollara í verkefnið, um 36 milljörðum íslenskra króna, en gert er ráð fyrir verulega auknu fjármagni í nánustu framtíð.