Royal Greenland hefur keypt meirihluta í kanadíska fiskvinnslufyrirtækinu Quin-Sea Fisheries og mun eignast það allt á næstu árum. Aðalframleiðsluvörur fyrirtækisins eru krabbi og rækja og í minna mæli beitukóngur, sæbjúga, loðna og þorskur.
Félagið rekur sex verksmiðjur og er ársveltan um 60 milljónir kanadadollara eða jafnvirði 5,6 milljarða íslenskra króna. Um 700 manns starfa í þessum verksmiðjum þegar umsvifin eru mest á háannatímum. Kaupverð fyrirtækisins er ekki gefið upp.
Frá þessu er skýrt á grænlenska vefnum Sermitsiaq.gl. Þar segir ennfremur að kaupin hafi valdið bæði gleði og tortryggni í kanadísku bæjunum þar sem starfsemin fer fram. Hinir tortryggnu óttast að Royal Greenland sé bara á höttunum eftir kvótum fyrirtækisins og ætli sér að leggja starfsemina í landi niður. Þeir sem jákvæðari eru benda hins vegar á að kanadíska fyrirtækið muni styrkjast við það að komast inn í markaðskerfi Royal Greenland og fá þar með betri aðgang að heimsmarkaðinum.