Andey ÁR er komin með um 50 tonna makrílafla frá því makrílveiðar hófust í júlí. Sigurbjörn Berg skipstjóri sagði rólegt yfir veiðunum þar sem hann var úti fyrir Garðskagavita í gær. Þeir félagar, Sigurbjörn og Þorleifur Guðjónsson, voru þó búnir að fá um eitt og hálft tonn fyrir hádegi.

„Ég er að spá í að fara vestur í nótt og athuga hvað er að gerast þar,“ sagði Sigurbjörn þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn.

Hann segir að menn hafi verið að fá 4-5 tonn úti af Arnarstapa í gær en lítið sem ekkert í morgun. „Ég er að spá í að taka góðan dag þarna á morgun og koma svo til baka og athuga hvort þetta hafi ekki skánað hérna.“

„Við fengum ágæta veiði við Grindavík fyrir verslunarmannahelgina, 10 kör fyrri daginn og eitthvað minna seinni daginn en svo var bara komið vitlaust veður,“ segir Sigurbjörn.

Hann segir að þetta hafi litið mjög vel út fyrir helgi. Allt hafi verið vaðandi í makríl en svo hvarf hann eftir bræluna sem gerði í lok helgarinnar. Sömu sögu er að segja úr Grindavík. Þar er mikill sjór núna í suðaustanátt og ekkert að hafa.